„Miðað við viðbrögðin hjá fólki þá finnst mér flestir vera þakklátir fyrir að saga eina Íslendingsins sem lifði af þessa vist sé til og líka það að okkur skyldi takast að taka á þessari tilfinningalegu, sálrænu hlið,“ segir Garðar Sverrisson um skráningu sína á minningum Leifs Muller úr fangabúðum nasista.

Bókin kom út árið 1988 undir titlinum Býr Íslendingur hér? og vakti strax mikla athygli. Hún hefur síðan verið endurútgefin, sett upp sem leikgerð og lifað áfram sem íslenskur vitnisburður um „mannlega vitfirringu“ eins og Leifur orðar það í lokaorðum bókarinnar.  

Í bókinni er sagt frá uppvaxtarárum Leifs í Reykjavík en megináherslan er á hremmingar hans í heimsstyrjöldinni síðari; hvernig hann var svikinn í hendur Gestapo í Noregi, fangelsaður og síðar sendur til Sachsenhausen-fangabúðanna skammt frá Berlín. Eftir að hann slapp út árið 1945 komu endurminningar hans út undir titlinum Í fangabúðum nazista, og voru þær meðal fyrstu útgefnu frásagna fanga sem lifðu af Helförina. 

Bók Garðars Sverrissonar kom út árið 1988 og vakti mikla athygli en þar er meðal annars farið mun nánar í aðdraganda og afleiðingar fangabúðavistarinnar, ekki síst langvarandi sálræn áhrif hennar.  

Gestir í sunnudagsþætti verða Gunnþórunn Guðmundsdóttir bókmenntafræðingur og Atli Þór Fanndal ráðgjafi. Umsjón hefur Auður Aðalsteinsdóttir.