Íþróttamaður ársins 2019, Júlían K. Jóhannsson, varð í gær Íslandsmeistari í kraftlyftingum á nú öll Íslandsmetin fjögur í sínum flokki. Hann bætti Íslandsmet þjálfara síns í gær og það kom honum á óvart miðað við hvernig árið hefur verið.
Júlían sem keppir fyrir Ármann og Sóley Margrét Jónsdóttir, Breiðabliki, urðu í gær Íslandsmeistarar í kraftlyftingum. Þau urðu stigahæst á Íslandsmótinu sem fram fór í Njarðvík.
Júlían setti Íslandsmet í hnébeygju þegar hann lyfti 415 kílóum og bætti sig um tvö og hálft kíló. Hann á nú öll Íslandsmetin fjögur í +120 kg. flokki karla. Í hnébeygju, bekkpressu, réttstöðulyftu og samanlögðu.
„Það voru svolítil kaflaskipti þarna í gær. Auðunn Jónsson hefur verið minn lærifaðir í kraftlyfingum [hlær] og kannski fleiru. Hann er þjálfarinn minn á mótinu í gær og þetta var í raun síðasta metið sem hann átti eftir í þessum þyngdarflokki,“ segir Júlían en Auðunn átti Íslandsmetið í hnébeygju í +120 kg. flokki fyrir mótið í gær. „Ég ákvað að taka þetta sem svolítið stöðutékk, hvar ég stend eftir þetta ár sem hefur verið undarlegt æfingalega séð og keppnislega. Þannig þetta kom mér svona skemmtilega á óvart,“ sagði Júlían.