Rétt upp úr kl. 14 í dag barst Náttúrustofu Vesturlands tilkynning frá lögreglunni um hvali í vandræðum við austanverðan Álftafjörð á Snæfellsnesi.

Tveir líffræðingar frá Náttúrustofunni, Menja von Schmalensee og Róbert A. Stefánsson, Jörundur Svavarsson líffræðingur frá Háskóla Íslands og Hjalti Viðarsson dýralæknir fóru strax á vettvang.

Þegar komið var að hópnum sást að um tíu grindhvali var að ræða og var meirihluti þeirra þegar dauður. Einn lifandi hvalur var laus á sundi rétt utan við hópinn og annar lifandi en fastur í fjörunni.

Hratt flæddi að og honum reyndist erfitt að lyfta sér upp úr sjónum til að anda, þar sem hann lá á hliðinni. Starfsmenn Náttúrustofu veltu hvalnum yfir á kviðinn svo hann næði andanum og tókst svo að losa hann.

Þau segja hann hafa verið veikburða en hann hresstist þegar leið á og synti til hvalsins sem hafði verið laus allan tímann. „Hvalurinn kallaði nokkrum sinnum til félaga sinna en fékk auðvitað engin svör“. Starfsmenn Náttúrustofu stöldruðu við í góða stund eftir að hafa losað hvalinn.

Að sögn líffræðinganna er ljóst að hvalirnir tveir sem enn eru á lífi ætli ekki að yfirgefa staðinn þar sem fjölskylda þeirra liggur í valnum. Mat þeirra er að yfirgefi hvalirnir ekki svæðið er hætt við að þeir festist aftur á næstu fjöru.

Náttúrustofa Vesturlands biðlar til fólks sem á leið um svæðið að hafa augun opin fyrir því hvort þeir lendi aftur í vandræðum. Fari svo er fólk beðið um tilkynna það strax til lögreglu eða Náttúrustofu Vesturlands í s. 898-6638.

Hópurinn samanstóð af samtals tíu grindhvölum, þar af einum mjög ungum kálfi. átta þeirra eru nú dauðir og tveir á lífi.