Minnst 24 eru látin af völdum gríðarlegra gróðurelda sem geisa á vesturströnd Bandaríkjanna. Aldrei hefur stærra landsvæði brunnið í gróðureldum þar, íbúar segja aðstæður minna á dómsdag. Formaður loftslagsráðs segir bein tengsl
„Þetta er eins og í svartsýnustu vísindaskáldsögu og umhverfið minnir á heimsendi,“ segir Martha Morgan sem býr í borginni Portland í Oregon. Og það er víðar sem íbúar líkja útsýni sínu við dómsdag. Í San Francisco í Kaliforníu varð himinninn glóandi appelsínugulur.
Eldar hafa geisað í Kaliforníu vikum saman. Gróðureldar eru ekki óvenjulegir í ríkinu en aldrei hefur stærra landsvæði brunnið þar. Minnst tuttugu hafa fundist látin. En eldarnir hafa líka náð til nágrannaríkjanna Washington og Oregon. Þar hafa fjögur látist í eldunum, yfirvöld óttast að fleiri lík finnst á næstu dögum. Í Oregon hefur yfir hálf milljón þurft að yfirgefa heimili sín, sem er um það bil einn af hverjum tíu íbúum í ríkinu. „Margir eldanna eru stjórnlausir, sem er óþægilegt. Við erum vön gróðureldum en ekki í líkingu við þessa, ekki á mínum 20 árum hérna. Lofið er baneitrað og fólk heldur sig inni við,“ segir Morgan. Ljóst er að eyðileggingin er gríðarleg. Heilu bæirnir eru nánast rústir einar.
Bein tengsl við loftslagsbreytingar
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagráðs, segir beint tengsl á milli gróðurelda og loftslagsbreytinga. Sé litið til ársins 1980 þá hafi þeim dögum fjölgað um helming á þessu svæði þar sem skapast hætta á að gróðureldar kvikni.
Viðtal við Halldór í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum má nálgast í spilaranum hér að ofan.