Ríki Evrópu verða sækja fólk til Lesbos, segir Salam Aldeen, maður sem hefur sinnt mannúðaraðstoð á eynni í fimm ár. Algjör óvissa blasir enn við þúsundum flóttafólks sem hafa gripið til fjöldamótmæla. Forsætisráðherra segir að verið sé að skoða hvað Ísland geti gert.
Um þrettán þúsund manns sem höfðust við í búðum gerðum fyrir aðeins þrjú þúsund eru nú á vergangi víðs vegar um eynna Lesbos. Flest þeirra eru enn í algjörri óvissu um næstu skref og í dag greip fólk til mótmæla á götum úti. Árum saman hafa borist fregnir af hræðilegum aðbúnaði flóttafólks á Lesbos.
Ástandinu í Moria-búðunum hefur verið líkt við helvíti á jörðu og í gær krafðist Rauði krossinn að þeim verði lokað þar sem aðstæður séu meö öllu óviðunnandi. „Fólkið hefur fengið nóg. Það vill ekki matinn, það vill ekki vatnið. Það vill bara frelsi,“ segir Salam Aldeen, stofnandi Team Humanity. Hann hefur dvalið á Lesbos í fimm ár og sinnt mannúðaraðstoð til flóttafólks.
„Þeir setja fólk þarna“
„Grikkland ræður ekki við þetta. Grikkir réðu ekki við það áður og ráða ekki við það núna. Það sem við þurfum núna er að Evrópa taki á vandanum og fari að flytja flóttamenn héðan til landa um alla Evrópu,“ segir Salam. Óstaðfestar fregnir hafa borist af því að hópur flóttafólks hafi kveikt í búðunum, Salam segist hafa heyrt þá skýringa og einnig að öfgahópar sem vilji fóki burt hafi kveikt í. En í hans huga eru það aðrir sem bera ábyrgðina.
„Að mínu mati voru það evrópskir stjórnmálamenn. Þeir eru ástæðan fyrir þessum bruna. Það er ekki flóttafólkið heldur þeir sem bera ábyrgðina af því að þeir leyfa fólkinu að vera þarna. Þeir setja fólk þarna, loka það inni í búðunum. Það er læst inni með lykli og skilið eftir. Það er eins og... Hvernig get ég útskýrt þetta? Fólkinu er ýtt að ystu mörkum þar til það springur,“ segir Salam.
Íslensk stjórnvöld skoða málið
Salam segir að samtökin ráði á engan hátt við að aðstoða þann fjölda sem til þeirra leitar. „Þetta er bara sorglegt, virkilega sorglegt. Ég veit ekki hvað ég get sagt. Við reyndum allt sem við getum. Fólk sefur í miðstöðinni okkar og fyrir utan hana og í skóginum í kring. Ég vona að Ísland og fleiri lönd fari að hugsa út í þetta. Þetta eru manneskjur. Við skulum hjálpa þeim.“
Tíu Evrópusambandsríki hafa ákveðið að taka á móti 400 fylgdarlausum börnum og norsk stjórnvöld ætla að sækja fimmtíu manns. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, segir að atburðirnir í Moria séu hörmulegir. Utanríkisráðherra og félags- og barnamálaráðherra séu að skoða hvað Ísland geti lagt af mörkum. Aðspurð hvort tillögur um slíkt segir Katrín: „Hafið þið eitthvað rætt hvað mögulega stendur til að gera? Einhverjar tillögur sem liggja á borðinu? Þessi ráðuneyti eru í raun og veru bara að vinna að málum og ég vona að þau muni koma með einhverjar tillögur um það eftir helgi.“