Kamilla Ívarsdóttir, 18 ára stúlka sem varð fyrir stórfelldri árás af hálfu þáverandi kærasta síns í fyrra, hefur kært sama mann fyrir grófa líkamsárás stuttu eftir að hann losnaði úr fangelsi. Maðurinn sætir ákæru fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, en hann hringdi 122 sinnum í Kamillu úr fangelsinu á Hólmsheiði og sendi fólk úr fangelsinu með bréf til hennar. Slökkt var á öllum myndavélum við höfnina í Reykjavík þegar hann réðst á hana.
„Svona menn þeir læra á þig. Þínar tilfinningar og veiku hliðina þína. Og þeir nota það þegar þeir þurfa til dæmis á fyrirgefningu að halda, þá komast þeir einhvern veginn inn í hausinn á þér. Og þú ert bara: Já, það er rétt hjá honum, þetta gerist ekki aftur. Og þess vegna fer maður alltaf aftur til þeirra. Út af því að maður heldur að þetta sé ekki að fara að gerast aftur þó þetta sé búið að gerast milljón sinnum áður. Og hann lofaði og lofaði og lofaði endalaust. En það breyttist ekki neitt,“ sagði Kamilla í viðtali í Kastljósi í kvöld.
„Hann hélt hníf upp við hálsinn á mér“
Þegar dómurinn var kveðinn upp hafði maðurinn setið í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði. Í dóminum segir að árásin á höfninni hafi verið einstaklega gróf og beri vott um algjört skeytingarleysi gagnvart lífi stúlkunnar. Þetta átti ekki eftir að verða síðasta árás ofbeldismannsins gegn Kamillu. Hann þurfti aðeins að afplána tæpan helming dómsins og var sleppt úr haldi nokkrum dögum eftir að hann var kveðinn upp.
Í maí réðst hann aftur á Kamillu.
„Hann tekur mig upp yfir axlirnar á sér og hendir mér í gólfið, þannig ég skalla gólfið og missti meðvitund í smá stund því ég skall svo fast á gólfið. Síðan nær hann mér þannig, ég sný mér svona við og er í að skríða upp í rúmið. Og tekur mig kyrkingartaki þar. Og ég var ekki einu sinni að berjast á móti honum því ég var bara: Ókei, þetta er bara búið sko. Og svo hélt hann hníf upp við hálsinn á mér og lýsti því fyrir mér hvað hann myndi gera ef ég myndi fara frá honum. Og hvað var það? Drepa fjölskylduna mína og mig,“ segir Kamilla.
Nokkrum dögum síðar fékk hún styrkinn til að fara frá manninum í skjóli nætur.
„Hvað er það sem gefur þér kraftinn til að fara? Í rauninni bara að hugsa út í það að ég ætla ekki að leyfa lífinu mínu að klárast fyrir tvítugsaldur. Þú varst búin að átta þig á því að þetta væri svo alvarlegt? Já.“
Viðtalið við Kamillu og Helgu Sæunni Árnadóttur móður hennar má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.