Kamilla Ívarsdóttir þríbrotnaði í andliti og er með gervikinnbein eftir að þáverandi kærasti hennar réðst á hana í október 2019. Kamilla var þá aðeins sautján ára gömul. Maðurinn fékk tólf mánaða dóm fyrir líkamsárásina, en sat aðeins inni í fimm og losnaði úr fangelsi nokkrum dögum eftir að dómurinn féll.
Rætt verður við Kamillu í Kastljósi að loknum fréttum í kvöld og hún segir sögu sína.
„Ég í rauninni man ekkert eftir þessu kvöldi. Eina sem ég man bara er að við vorum niðri í bæ að hafa gaman og svo man ég bara ekki neitt,“ segir Kamilla. Hún segist næst muna eftir sér þegar hún vaknaði á spítalanum.
„Ég er hérna þríbrotin í andlitinu. Ég er með gervibein hér í dag. Og hausinn á mér var tíu sinnum stærri og hérna. Eini staðurinn sem ég var ekki með áverka á var vinstri eða hægri rasskinn,“ segir Kamilla um áverkana sem maðurinn olli henni.
„Svona menn þeir læra á þig,“ segir Kamilla um samband sitt við manninn. „Þínar tilfinningar og veiku hliðina þína. Og þeir nota það þegar þeir þurfa til dæmis á fyrirgefningu að halda, þá komast þeir einhvern veginn inn í hausinn á þér. Og þú ert bara: Já, það er rétt hjá honum, þetta gerist ekki aftur. Og þess vegna fer maður alltaf aftur til þeirra. Út af því að maður heldur að þetta sé ekki að fara að gerast aftur þó þetta sé búið að gerast milljón sinnum áður. Og hann lofaði og lofaði og lofaði endalaust. En það breyttist ekki neitt.“