Það er réttlætanlegt að Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, hafi farið í opinbera heimsókn til Tyrklands. Þetta er mat Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur mannréttindalögfræðings og þingmanns Pírata sem var gestur Morgunútvarps Rásar tvö í morgun. Fulltrúar dómstólsins verða að vera óhlutdrægir gagnvart sínum aðildarríkjum, hefði Róbert ekki þegið boðið hefði það verið til marks um hið gagnstæða.

„Ég tel fullkomnlega réttlætanlegt að Róbert hafi farið í opinbera heimsókn til Tyrklands. Það er bara mjög venjulegt að forseti Mannréttindadómstólsins fari í opinberar heimsóknir til aðildarríkja og berist honum boð um slíkt, eins og ég held að hafi verið raunin hérna, er mjög erfitt að hafna því, sérstaklega frá svona stóru ríki eins og Tyrklandi,“ sagði Þórhildur Sunna.

Hún sagði að Mannréttindadómstóllinn yrði að virka óhlutdrægur gagnvart sínum aðildarríkjum og gæti ekki mismunað þeim. „Þú ert óþekkt aðildarríki þannig að ég kem ekki í heimsókn til þín eða að það sé einhverra hluta vegna vegna þess að hann dæmir mál frá þessu ríki, þá ætti hann ekki að koma. Þá ætti það við um öll löndin.“

Þórhildur Sunna sagði að málið væri ekki það alvarlegt að trúverðugleiki dómstólsins væri í hættu eða Róbert ætti að segja af sér.

„Hlutirnir sem verið er að gagnrýna að Róbert hafi gert eru hlutir sem almennt hafa verið gerðir í svona heimsóknum. Spurningin er bara hvort það hafi verið tækifæri hérna til að endurskoða þessar hefðir. Eða ekki. Ekki öfunda ég Róbert né dómstólinn að hafa þurft að velja hvað vægi þyngra - að móðga mögulega Tyrkland eða gefa stjórnarandstæðingum til kynna að  hann væri ekki óhlutdrægur gagnvart þeim.“

Þórhildur Sunna sagði að um hefði verið að ræða sérlega viðkvæma heimsókn og vel mætti spyrja ýmissa spurninga í tengslum við hana, en skýrt hafi komið fram í máli Róberts, þegar hann tók við heiðursnafnbót frá háskólanum í Istanbúl að hann hefði tekið við henni vegna mikilvægi þess að dómstóllinn kæmi fram sem óhlutdrægur.