Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Akureyri, segir að álagið á lögregluna á Norðurlandi eystra aukist með lokun fangelsisins í bænum. Það sé áhyggjuefni.

Fangelsinu á Akureyri verður lokað í næstu viku. Lokuninni var frestað til þess að bíða eftir mati á viðbótarkostnaði lögreglu sem hafi nýtt sér þjónustu fangavarða í áranna rás. Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu frá í gær kemur fram að hægt sé að reka stærri fangelsin á hagkvæmari hátt og fullnusta fleiri fangelsisrefsingum með lokun fangelsisins á Akureyri. Þá verði starfsemi lögreglunnar efld og einum manni bætt við útkallsvakt hennar allan sólarhringinn. 

Halla Björk segir að vonast hafi verið til þess að hætt yrði við lokun fangelsisins eftir fund með dómsmálaráðherra í vor og að sumarið yrði notað til þess að finna aðra hagræðingarkosti hjá Fangelsismálastofnun. „En sumarið hefur verið nýtt í annað, sennilega til að undirbyggja þessa ákvörðun og nú liggur það fyrir.“

Halla segist hafa fullan skilning á því að það þurfi að fara í hagræðingar og fara vel með almannafé. „En það virðist alltaf vera að byrjað á minnstu stofnunum sem eru lengst frá ákvörðunartökunni sjálfri sem þýðir að við á landsbyggðinni gjöldum þess.“ 

Gagnrýnt hefur verið að ráðherra skýli sér á bakvið lokunina með því að efla lögregluna samhliða. „Ég veit ekki hvort maður á að segja skýla en mögulega er aðeins verið að villa um fyrir fólki þegar settar eru fram tillögur eða úrbætur í löggæslunni samhliða sem eru löngu komnar til framkvæmda og eiga ekkert skylt við þetta mál.“