Axel P. J. Einarsson tónlistarmaður lést 5. september. Axel var áberandi í tónlistarlífi landsins og lék með hljómsveitunum Icecross, Deildarbungubræðrum og fleiri. Hann samdi auk þess lagið Hjálpum þeim, eitt vinsælasta lag sem gefið hefur verið út hér á landi.

Axel fæddist á Fáskrúðsfirði og ólst þar upp fyrstu árin. Tónlistarferill hans hófst í Réttarholtsskóla í Reykjavík þegar hann stofnaði hljómsveitina Þotur. Jónatan Garðarsson, sem þekkir feril Axels vel, segir að hann hafi verið einn af þessum strákum sem byrjuðu að spila þegar bítlahljómsveitirnar voru að ná vinsældum. 

Þegar Flowers og Hljómar runnu saman í Trúbrot sátu margir úr þeim hljómsveitum eftir. Auk þess var almennt rót á bransanum og nýjar hljómsveitir spruttu fram. Margar hétu þær skemmtilegum íslenskum nöfnum eins og Ævintýri, Náttúra og Tilvera. Þá síðastnefndu stofnaði Axel með þeim Engilbert Jenssen úr Hljómum og Jóhanni Kristinssyni úr Flowers og fengu þeir Rúnar Gunnarsson til liðs við sig. Tilvera varð ekki langlíf þrátt fyrir tilraunir Axels til að halda hljómsveitinni saman. Eftir að hljómsveitin hætti komu út nokkrar smáskífur með henni en Axel var þá þegar búinn að stofna nýja hljómsveit sem hann kallaði Icecross. Hún gaf út eina plötu sem seldist ekki vel á sínum tíma en er í dag ein verðmætasta plata Íslands. „Í dag er hún dáldið súr og þung og það er pínulítill keimur af pönki á henni,” segir Jónatan um plötu Icecross. 

„Þetta er plata sem seldist ekki mikið á sínum tíma, kom út í eitt eða tvö þúsund eintökum. Samt sem áður hafa menn verið að uppgvöta hana í seinni tíð og vínylplatan, upprunarlega pressunin, selst fyrir tugi þúsunda,” segir Jónatan. Hann bætir við að platan þyki stórmerkileg, hafi verið á undan sinni samtíð og ólík öðru sem var verið að gera á Íslandi. 

Eftir að Icecross hætti hélt Axel til Bandaríkjanna. Þegar hann sneri aftur til Íslands gerðist hann umboðsmaður hljómsveitarinnar Eikur sem lék blöndu af djass-rokki og blús-rokki. Til þess að geta spilað á böllum var ákveðið að stofna hálfgerða ballhljómsveit innan Eikur og var Axel fenginn með í verkið. Þeir nefndu þá sveit Deildarbungubræður og naut hún talsverðra vinsælda. 

Axel var einnig liðtækur í útgáfu. Hann stofnaði hljóðverið Stúdió Stöðin 1984 og starfrækti það til 2009. Samhliða hljóðverinu rak hann útgáfu sem hét Stöðin. Þegar Band Aid gaf út vinsælt söfnunarlag 1984 langaði Axel að gera eitthvað sambærilegt á Íslandi. Hann samdi lagið Hjálpum þeim og fékk Jóhann G. Jóhannsson vin sinn til að semja texta. Þeir fengu nær alla þekktustu söngvara landsins til liðs við sig og gáfu lagið út á plötu. Hún seldist geysivel og rann allur ágóði af sölunni í baráttuna gegn hungursneyð í Eþíópíu.

Rætt var við Jónatan Garðasson um feril Axels P. J. Einarssonar í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.