Alma Möller landlæknir sagði í sjónvarpsfréttum að skjal sem Sjúkratryggingar fundu í gær séu óklárað vinnuskjal þar sem gæti misskilnings. Þar sé einnig að finna atriði sem Krabbameinsfélag Íslands hefði leiðrétt ef það hefði fengið tækifæri til þess. Hún sagði að aðstoða þyrfti þær konur sem kynnu að hafa orðið fyrir skaða vegna mistaka við krabbameinsleit en ítrekaði um leið mikilvægi þess að konur færu í skimun.

Samkvæmt yfirlýsingu landlæknisembættisins í dag var skjalið sem fannst í skráasöfnum Sjúkratrygginga í gær óklárað vinnuskjal. Það er önnur lýsing en forstjóri Sjúkratrygginga gaf í gær, sem sagði að fundist hefði skjal sem Sjúkratryggingar hefðu fundið eftir mikla leit.

„Þetta er skjal sem Sjúkratryggingar unnu og það byggir á gögnum frá Krabbameinsfélaginu,“ sagði landlæknir í sjónvarpsfréttum í kvöld. „Það kemur kannski ekki í ljós fyrr en maður fer að rýna skjalið að þar er misskilningur og ákveðin atriði sem Krabbameinsfélagið hefði leiðrétt ef það hefði fengið skjalið til umsagnar. Þannig að Sjúkratryggingar hyggjast gera það nú.“

Alma sagði ekkert benda til þess að brotalamir séu í krabbameinsleit Krabbameinsfélagsins eins og Tryggvi Björn Stefánsson lýsti í Kastljósi í síðustu viku. Hún sagði að landlæknisembættið skoði málið frá ýmsum liðum. Þar á meðal hvernig eigi að koma í veg fyrir ranga greiningu eins og þá þegar

„Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt núna að tryggja að þær konur sem hugsanlega hafa orðið fyrir skaða fái þá meðferð og aðstoð sem þær þurfa, en líka að viðhalda trausti til skimana. Þetta er gríðarlega mikilvægt lýðheilsumál,“ sagði Alma.

Landlæknir ítrekaði mikilvægi krabbameinsskimunar. „Ef ég ætti tíma á morgun myndi ég ekki hika við að mæta,“ sagði Alma. „Ég hugsa að traust hafi beðið hnekki en ég bendi á að það er mikilvægt að ljúka rannsókn. Það er alltaf þannig með alvarleg atvik að það þarf að skoða þau mjög gaumgæfilega til að sjá hvað fór úrskeiðis. Almennt gildir að oftast er það blanda af mannlegum og einhverjum kerfislegum þáttum.“ Alma hvatti fólk til að bíða með að mynda sér skoðun þar til ljóst væri hvað kæmi út úr úttektinni.