Breski tónlistarmaðurinn Nick Drake var 26 ára þegar móðir hans kom að honum látnum á bernskuheimilinu eftir of stóran skammt af kvíða- og þunglyndislyfjum. Tónlist hans vakti litla athygli á meðan hann lifði en í dag er hann dáður um allan heim og eru plötur hans taldar meðal fremstu verka breskrar þjóðagatónlistar á 20. öld.

Nick Drake hafði tveimur árum fyrir andlát sitt flutt í aftur foreldrahús eftir erfið ár andlega. Molly Drake, móðir hans, rumskaði um morguninn 26. nóvember 1974, sem virtist ætla að vera nokkuð hversdagslegur morgunn. Hún heyrði í Nick fara fram og fá sér morgunkorn, fara svo aftur inn í herbergið sitt og setja adagio-hluta Brandenborgarkonserts Bachs á fóninn. Hann lagðist svo hversdagslega í rúmið með seríósskál. Áhyggjulaus lagðist Molly til hvílu en nokkrum klukkustundum síðar, þegar hún var sjálf risin úr rekkju og farin á ról, ákvað hún að kíkja inn í herbergi einkasonarins og athuga hvernig hann hefði það. Henni varð strax ljóst þegar hún sá hann í rúmi sínu að hann væri farinn.

Úrskurður yfirvalda var að Nick hefði framið sjálfsvíg en aðstandendur og ættingjar hans hafa dregið það í efa. Nick hafði reyndar glímt við alvarlegt þunglyndi og nokkrum árum fyrr reynt að svipta sig lífi en hegðun hans dagana fyrir andlátið vakti efasemdir. Kenning fjölskyldunnar var á þá leið að hann hefði líklegast ætlað sér að taka inn fleiri töflur til að hvílast betur en mjór og veiklulegur líkami hans hefði ekki þolað lyfin, eða eins og Molly Drake spurði sjálf: „Hver myndi fá sér seríós og drepa sig svo?“

Snorri Helgason fjallar um líf og list Nicks Drake í þáttunum Bleikmáninn rís á Rás 1 á laugardögum. Hægt er að hlýða á fyrsta þáttinn í spilara RÚV.