Aldrei hefur stærra svæði brunnið í gróðureldum í Kaliforníu en í ár. Yfirvöld óttast að eldarnir færist í aukana í vikunni vegna óhagstæðra veðurskilyrða. Hitamet hafa fallið í Kaliforníu síðustu daga og spáð er hvössum og óútreiknanlegum vindi.
Tæplega sjö þúsund og fimm hundruð ferkílómetrar af landi hafa brunnið síðan eldarnir kviknuðu um miðjan síðasta mánuð. Átta hafa farist í eldunum og um fjórtán þúsund slökkviliðsmenn berjast nú við gróðurelda á tuttugu og fimm stöðum. Sá stærsti er í Sierra þjóðgarðinum við borgina Fresno þar sem um 550 ferkílómetrar hafa brunnið.
Hitabylgjan í Kaliforníu hefur haft víðtæk áhrif. Í Resada-hverfinu í Los Angeles, þar sem 47 stiga hiti mældist í gær, fór rafmagn af tugþúsundum heimila megnið af deginum vegna álags.