Héraðssaksóknari hefur ákært rúmlega fimmtugan mann fyrir morð, með því að kasta manni fram af svölum í Úlfarsárdal í Reykjavík í desember. Verkfræðingur og réttarmeinafræðingur vinna nú álitsgerð í málinu.
Fimm voru handteknir síðdegis sunnudaginn 8. desember eftir að maður féll fram af svölum á þriðju hæð fjölbýlishúss við Skyggnisbraut í Úlfarsárdal í Reykjavík og lést.
Fjórum var fljótlega sleppt en sá fimmti var úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um að hafa banað manninum. Vitni höfðu séð þá tvo rífast í aðdragandanum og séð þann handtekna löðrunga hinn tvisvar. Báðir eru þeir frá Litáen, sá látni 57 ára og sá handtekni fimmtugur.
Sviðsettu fallið
Rannsóknin var mjög umfangsmikil. Lögregla sviðsetti meðal annars vettvanginn að viðstöddum verkfræðiprófessor og fleirum og kastaði brúðu í mannslíki, sem líktist hinum látna að hæð og þyngd, úr sömu hæð og fram af jafn háu handriði. Allt var þetta tekið upp með fjórum myndavélum samtímis.
Niðurstaðan var að honum hefði sennilega verið kastað eða hrint af afli fram af svölunum. Engu að síður taldi Landsréttur í janúar ekki lengur skilyrði til að halda manninum í gæsluvarðhaldi og úrskurðaði hann í staðinn í farbann sem hann hefur sætt síðan.
Ákæra á hendur honum var svo gefin út 3. júní, en ekki hefur verið greint frá henni fyrr en nú. Í henni er honum gefið að sök að hafa „á svölum íbúðarinnar, slegið [manninn] hnefahöggum og sparkað í líkama hans og höfuð auk þess að slá hann þungu höggi í höfuðið með óþekktu áhaldi og í kjölfarið kastað honum fram af svölunum þannig að [maðurinn] féll 6,96 metra niður á steypta stétt og lést skömmu síðar af áverkum sem hann hlaut á heila, brjóstkassa og brjóstholslíffærum“.
Hinn ákærði hefur alla tíð neitað sök og gerði það líka þegar ákæran var þingfest í sumar. Verjandi hans krafðist þess að dómkvaddir matsmenn, verkfræðingur og réttarmeinafræðingur, færu betur yfir málið og sú vinna stendur nú yfir.
Þrjú manndrápsmál fyrir dómi og eitt í rannsókn
Þetta er þriðja manndrápsmálið sem ratað hefur fyrir dóm í sumar. Karlmaður á sextugsaldri var í júní ákærður fyrir að bana sambýliskonu sinni í Sandgerði í lok mars, og gæsluvarðhald yfir honum var framlengt í dag. Um svipað leyti var maður um þrítugt sömuleiðis ákærður fyrir að bana móður sinni í Hafnarfirði í byrjun apríl. Þá er maður í haldi grunaður um að hafa valdið bruna á Bræðraborgarstíg í júní þar sem þrír létust. Það mál er rannsakað sem manndráp af ásetningi og gæsluvarðhald yfir honum var líka framlengt í dag.