Almannavarnir og embætti landlæknis hafa boðað til upplýsingafundar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar klukkan 14 í dag. Fundurinn er í beinni útsendingu hér á vefnum og á RÚV og útvarpað á Rás 2.

Á fundinum ræða Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn stöðu faraldursins hér á landi og svara spurningum fjölmiðla.

Ekkert innanlandssmit greindist í þeim sýnum sem rannsökuð voru í gær. Einstaklega fá sýni voru greind úr innanlandsskimun í gær. Það er vegna þess að verið var að breyta aðstöðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til sýnatöku.

Fimm smit greindust við landamærin í gær. Af þeim voru tvö þeirra virk og er beðið eftir mótefnamælingu úr þremur.