Landsamtökin Þroskahjálp vilja að sérfræðingur í málefnum fatlaðra geri athugun á öllum sem dvöldu í skammtímavistun fyrir fatlaða á Holtavegi á starfstíma karlmanns sem framdi þar kynferðisbrot, til að ganga úr skugga um að ekki hafi verið brotið á fleirum. Ekki hafi verið nóg að gera aðeins aðstandendum viðvart.
Hafa árum saman kallað eftir að tvímennt sé á vöktum
Karlmaður á fimmtugsaldri hlaut nýverið dóm í héraði fyrir kynferðisbrot í starfi sínu á skammtímavistun á Holtavegi, sem er úrræði fyrir fatlaða á vegum Reykjavíkurborgar. Velferðarsvið borgarinnar breytti verkferlum í kjölfar málsins og meðal annars verður reynt að ganga úr skugga um að tvímennt sé á öllum vöktum.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar segir að samtökin hafi árum saman kallað eftir þessari breytingu.
„Það er auðvitað ekki ásættanlegt að það komi í ljós að verkferlar séu ekki í lagi. Við höfum margbent á það að mönnun í þjónustu við fatlað fólk er víða ábótavant og undir öryggismörkum ef svo má segja,“ segir Bryndís.
„Menn verða ekki ofbeldismenn milli hálf fjögur og fjögur“
Borgin upplýsti aðstandendur þeirra sem dvöldu á Holtavegi á þeim tíma sem brotið var framið um málið þegar það kom upp, en ljóst er að fleiri umgengust manninn á því eina og hálfa ári sem hann starfaði þar. Bryndís furðar sig á að ekki hafi verið haft samband við fleiri.
„Ég hefði haldið það að þegar starfsmaður í svona þjónustu verður uppvís að svona alvarlegu broti, ofbeldisbroti hvers kyns sem það kann að vera, þá tel ég eðlilegt að það sé kannað hjá öllum sem hafa verið í þjónustu á þeim tíma sem viðkomandi starfar á staðnum. Því menn verða ekki ofbeldismenn bara svona einn daginn milli hálf fjögur og fjögur, á vaktaskiptum,“ segir hún.
Ekki nóg að láta bara aðstandendur vita
Bryndís bendir á að um einstaklega viðkvæman hóp sé að ræða.
„Þetta er yfirleitt fólk í mjög viðkvæmri stöðu sem tjáir sig ekki á hefðbundinn hátt. Það þarf að fara fram sérstök athugun á til dæmis breyttri hegðun eða tjáningu. Til dæmis merki um að þau vilji ekki fara á staðinn eða annað slíkt, sem gefur vísbendingu um að þau hafi líka lent í þessu,“ segir hún.
Verkferlar verði að vera í lagi þegar slík mál koma upp.
„Það er ekki nóg að spyrja já og nei spurninga heldur þarf oft sértæka aðila til að kanna hugsanlega breytt atferli hjá fólki sem ekki tjáir sig með hefðbundnum hætti. Og það er ekki nóg bara að láta aðstandendur vita. Það þarf að fara fram mun ítarlegri könnun vegna fötlunar sem viðkomandi búa við. Þetta er það sem mér fyndist eðlileg vinnubrögð í svona málum,“ segir Bryndís.