Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, segir að ekki sé forsvaranlegt annað en að hækka grunn atvinnuleysisbætur. Rætt var við Sigríði Ingibjörgu og Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í Silfurinu í morgun.

Grein Önnu Hrefnu um atvinnuleysisbætur í Fréttablaðinu 12. ágúst vakti töluverða athygli. Þar segir að hugmyndir um hækkun atvinnuleysisbóta sé nauðsynlegt að skoða í samhengi við aðrar stærðir og með tilliti til þess hver langtímaáhrifin gætu orðið fyrir ríkissjóð og samfélagið allt.

Atvinnulífið verði að geta staðið undir kerfinu

Anna Hrefna sagði í Silfrinu að atvinnulífið verði að geta staðið undir almannatryggingakerfinu, sem sé fjármagnað með sköttum á laun, og að hækkun bóta þurfi að skoða í því samhengi. Samtök atvinnulífsins vilji standa vörð um kerfið til framtíðar. Hún segir að samtökin taki ekki afstöðu til þess hve háar bæturnar eigi að vera. „En ef við skoðum þær í samhengi við önnur lönd og laun á markaði þá getum við verið stolt af því kerfi sem er til staðar á Íslandi í dag,“ sagði Anna Hrefna. 

Hætta á fátækt meðal öryrkja

Atvinnuleysi hefur aukist mikið eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og hefur verkalýðsforystan hvatt stjórnvöld til að hækka atvinnuleysisbætur. Sigríður Ingbjörg bendir á að margir séu enn á tekjutengdum bótum en að þeir sem eru komnir á grunnbætur fái 289.000 krónur á mánuði fyrir skatt, sem sé 45.000 krónum lægra en lágmarkslaun. „Þetta er rosalega lágt og það er ekki forsvaranlegt annað en að hækka þetta.“ Þá segir Sigríður Ingibjörg að bætur almannatrygginga hafi ekki hækkað eðlilega um áramót og að af því hafi BSRB áhyggjur.„Öryrkjar eru hópur sem þar stendur sérstaklega höllum fæti og býr við gallað kerfi. Þarna eru hópar sem eru í miklu meiri hættu en aðrir að lenda í fátækt.“

Hér fyrir neðan má horfa á viðtalið:

Brýnt að verja fólk fyrir skakkaföllum

Í umsögn BSRB um fjárlög sem nú eru í gildi var varað við því að hækka atvinnuleysisbætur og bætur til almannatrygginga of lítið. „Svo gerist það sem að enginn vissi þá, að það sannarlega reynir á þetta kerfi sem aldrei fyrr og við erum að benda á það að atvinnuleysisbæturnar, grunn- og tengjutengdu, eru of lágar, af því að okkar verkefni núna, í þessum ömurlegu aðstæðum, er að tryggja afkomu fólks, að það komist í gegnum þetta með eins litlum skakkaföllum og mögulegt er,“ segir Sigríður Ingibjörg. 

Mun minni verðmætasköpun en áætlað var

Anna Hrefna segir að ábendingar SA hafi verið almennar og miðist að því að viðhalda atvinnustigi eins og mögulegt sé og að hægt verði að fjölga störfum. Stóra vandamálið sé að í ár og næstu tvö ár séu það 1.300 milljarðar af verðmætasköpun sem verði ekki til, samkvæmt spá Seðlabankans. „Þannig að það er algjörlega rétt hjá Sigríði að það reynir mjög á kerfið.“ Anna Hrefna bendir á að það hafi verið afstaða ríkisins að standa vörð um kerfið og skerða ekki réttindi þó að það hafi verið algjörlega ljóst að tekjur yrði mun minni en áætlað var. „Það hefði alveg verið eitt sjónarmið að segja; við getum ekki staðið undir þessu í ljósi kringumstæðna en það ætla stjórnvöld ekki að gera.“

Hér má horfa á þáttinn í heild sinni.