Fjallmenn á Suðurlandi héldu á afrétt í dag. Göngur verða með óhefðbundnu sniði í ljósi faraldursins. Þrátt fyrir það er tilhlökkunin mikil.
Fjallmenn sem smala Gnúpverjaafrétt komu saman við Fossnes í dag og héldu ríðandi inn á afrétt. Þessi hópur fer inn að Dalsá. Framundan er fimm daga ferðalag um hálendið í leit að sauðfé. Þeir sem lengst fara héldu af stað fyrir helgi, og fara þeir inn í Arnarfell upp undir Hofsjökul. Sú smölun tekur níu daga. Lilja Loftsdóttir, fjallmaður og fyrrverandi fjallkóngur Gnúpverja segir tilhögun smölunar í ár vera óhefðbundna.
„Við erum að fara tíu saman ríðandi en ættum undir öllu venjulegu að vera sautján. Við ákváðum þetta út af covidinu, því fyrir innan Dalsá þá eru Flóa og Skeiðamenn vanir að smala með okkur, en þetta árið þá fara þeir ekki með okkur svo við fjölguðum þá okkar fólki, Gnúpverjum fyrir innan Dalsá, það fólk er farið.“ segir Lilja.
Áfram aðeins þeir sem eiga erindi í réttir sem mega mæta
Fjallmenn reyna að fara eftir sóttvarnareglum eftir bestu getu og virða fjarlægðartakmörk í fjallaskálum.
„Það voru gefnar út reglur um þetta, sem við erum að reyna að fara eftir sem mest. Það náttúrulega er að breytast á morgun í meters reglu en við vorum búin að skipuleggja miðað við tveggja metra regluna. Þannig að þetta árið, og við þessi hópur sem er að fara núna, við ættum að gista í húsi á morgun og hitta alla hina á þriðjudag í Gljúfurleit. En við ætlum að gista allar okkar nætur í Hólaskógi og keyra okkur þar á milli. Þannig að við förum með hrossin inn í Gljúfurleit og vinnum okkar vinnu eins og verið hefur en gista í Hólaskógi. Og þetta er eingöngu til þess að við getum haft sem rýmst á okkur.“ segir Lilja.
Breyting á tveggja metra reglu sem tekur gildi á morgun breytir litlu um skipulag smölunar.
„Þetta breytist vissulega í sambandi við réttirnar. Þar var búið að segja að það mættu ekki vera meira en hundrað manns, og við vorum búin að skipuleggja út frá því og dreifa því á þá bændur sem eiga fé. Það verður gefin út ný tala með það þegar þetta hækkar upp í 200 að þá munum við fjölga fólkinu.“
Þannig að fólk sem á ekki erindi það getur ekki mætt í réttir?
„Það verður alveg skipulagt hverjir koma og það þarf að gefa það upp hverjir mæta í réttir.“ segir Lilja.
Ekki bara smölun sem heillar
Lilja hefur farið til fjalls um fjörtíu sinnum, en aðrir eru að fara í fyrsta sinn. Þar á meðal er Stefanía Katrín Einarsdóttir frá Hæli II.
Hvernig leggst þetta í þig?
„Bara mjög vel sko.“
Fyrir hverju ertu spenntust?
„Félagsskapurinn og hafa gaman.“
Heldurðu að þú finnir einhverjar kindur?
„Ég vona það, það væri leiðinlegt ef það væri ekki“ segir Stefanía.
Óbyggðirnar kalla og margir fara ár eftir ár til fjalls. Helga Høeg Sigurðardóttir, bóndi á Hæli I er að fara til fjalls í níunda sinn. Þó svo að smölunin sé aðalatriði er fleira sem heillar.
„Það er bara dásamlegt að komast inn á afrétt, inn á fjöll. Fyrst og fremst að finna féð, sjá það koma af fjalli eftir sumarið, vonandi vænt. Svo er það náttúrufegurðin sem er stórbrotin. Mér finnst alltaf magnað að ríða yfir eins og Fjórðungssandinn, búinn að ríða heilan dag í sandi og grjóti, koma svo í Þjórsárver og þar geturðu staðið í hnéháu grasi. Það er alveg magnað að upplifa það.“
Svo slæmt veður hefur engin áhrif á upplifunina?
„Nei nei ,auðvitað upp á smölunina þurfum við að hafa bjart og geta séð vel yfir, en á leiðinni inn úr þá erum við bara aðkoma okkur á staðinn, og þá gerir smá rigning ekkert til.“ segir Helga.