Lengsta ástarbréfið á íslensku er varðveitt í Kvennasögusafni Íslands og það ritaði ástfanginn Reykvíkingur í Kaupmannahöfn um aldamótin 1900.

Fyrir hundrað og tuttugu árum stóð ungt og ástfangið par í bréfaskriftum á milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Opinberlega voru þau ekki par en hrifning þeirra hvort á öðru fer ekki milli mála í bréfunum sem þeim fóru á milli, og varðveitt eru í Kvennasögusafninu á Landsbókasafni Íslands. Bréfritarnir voru Guðrún Lárusdóttir og Sigurbjörn Á Gíslason sem síðar gengu í hjónaband í Reykjavík og áttu saman tíu börn. Í desember árið 1900 bað Guðrún Sigurbjörn um að senda sér langt bréf næst. Hann svaraði kallinu og sendi henni bréf sem hann hafði límt saman svo það var fjögurra metra langt. Sigurbjörn sagði að bréfið væri nógu langt til að það gæti faðmað hana þar sem hann væri ekki í aðstöðu til að gera það sjálfur. Rætt var við Rakel Adolfsdóttur safnstýru Kvennasögusafns Íslands í Víðsjá, um þetta lengsta ástarbréf sem vitað er til að hafi verið skrifað á íslensku.