Jón Ívar Einarsson prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, telur að íslensk stjórnvöld eigi áfram að skima á landamærunum en skipta út sóttkví fyrir heimkomusmitgát. „Það er ekkert alveg öruggt að heimkomusmitgát sé stórhættuleg miðað við sóttkví því hvoru tveggja eru eftirlitslaus fyrirbæri.“ Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur þetta óskynsamlegt og segist geta nefnt mýmörg dæmi þess þar sem fólk hefur misskilið hvernig heimkomusmitgátin virkar.
Jón Ívar og Kári hafa átt í ritdeilu að undanförnu um aðgerðir Íslands vegna kórónuveirufaraldursins. Þeir mættust í Silfrinu í dag þar sem farið var um víðan völl varðandi farsóttina.
Jón Ívar benti á að í upphafi faraldursins hafi dánartíðni af völdum COVID-19 ekki verið þekkt. Í ljós hafi komið að hún hafi verið ýkt og sé í raun tífalt lægri en upphaflega var talið. „Það skiptir líka máli að þær afleiddu afleiðingar af aðgerðum gegn COVID-19 valda ákveðnum skaða.“
Hann telur að aðgerðirnar innanlands eigi að vera eins og þær séu í dag. Þær séu hófsamar og geri fólk kleift að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er. „Og við eigum að halda áfram að skima á landamærunum en skipta út sóttkví fyrir heimkomusmitgát.“ Ástæðan fyrir því að sóttvarnir ættu áfram að vera eins og þær eru í dag sé að þær haldi smitstuðlinum undir einum og þar eigi hann að vera. „Og leyfa síðan ferðamönnum að koma inn og eyða evrunum sínum.“
Svokallaður smitstuðull er notaður til að reikna út hversu marga einn einstaklingur nær að smita á meðan hann er smitandi. Og hér má nálgast reglur um heimkomusmitgát.
Kári sagði Jón Ívar snúa allskonar hlutum á hvolf en tók undir með honum að það væri rétt að gæta hófs í sóttvörnum innanlands. Það væri líka rétt að aðgerðirnar hefðu valdið ákveðnum skaða. „Aðferðin til að minnka þennan skaða er að gefa fólki tækifæri til að lifa eðlilegu lífi, að þurfa ekki að vera í sóttkví, geta snert hvort annað og farið á tónleika og í skóla á eðlilegan hátt.“
Hann nefndi að fyrstu 30 dagana eftir að fyrst var skimað fyrir veirunni á landamærunum hefði einn af hverjum þrjú þúsund verið með virkt smit. Í dag væri þetta einn af hverjum þúsund eða þrisvar sinnum meira. Það væri því óskynsamlegt að fara breyta einhverju og taka upp aðgerðir sem ekki væri hægt að framfylgja. „Maðurinn í smitgát má fara út í búð og vera alls staðar og ég get nefnt mýmörg dæmi um hvernig fólk hefur misskilið þetta.“
Kári sagðist meðvitaður um að hann og Jón Ívar væru ekki sammála. „En báðir viljum við hafa aðstæður þar sem fólk getur látið líða sér vel.“
Undir það tók Jón Ívar en sagði jafnframt að það væri óraunhæft að halda að lífið yrði eðlilegt fyrr en það væri komið bóluefni. Stjórnvöld hefðu komið fram með slíkar væntingar en það gengi ekki upp. „Við erum ekkert að fara í stór partý eins og í sumar því slíkt mun leiða til stórra sveifla.“
Kári sagði markmið stjórnvalda skýr, að hafa sem fæst tilfelli og það næðist með þessum ströngu reglum á landamærunum. „Við höfum núna haft aðra bylgju sem á rætur sínar í einum einstaklingi sem kom til landsins.“ Læknisfræði byggðist á því að meta líkur og með þessum aðgerðum væri verið að minnka líkurnar á smitum og auka líkur á því að fólk gæti lifað eðlilegu lífi.
Hægt er að horfa á umræðurnar í heild í spilaranum hér að ofan.