„Fólk er bara orðið brjálað. Það eru allir að springa inni í sér,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins. Hún getur loks farið að opna dyr þar á ný fyrir áhorfendum eftir erfiða mánuði en vegna nándartakmarkana er ekki hægt að fylla salina nema að hálfu leyti. Það ekki nóg til að sýna allar þær sýningar sem eru á dagskrá.

Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins er nýkomin af fundi með samstarfsfélögum sínum þegar hún lítur við í Síðdegisútvarpið á Rás 2. Hún segir stemninguna góða en viðurkennir að sakna þess að hitta félagana en fundirnir hafa farið fram í gegnum tölvu síðustu mánuði. „Þetta er ólíkt því að hitta fólk og það er samveran og nándin sem maður þráir,“ segir hún. „Ég set beintengingu til dæmis á milli slagsmála í miðborginni og ástandsins. Fólk er bara orðið brjálað. Það eru allir að springja inni í sér.“ Hún segir að fólk þurfi nauðsynlega að fá aftur rými til að gleðjast hvert með öðru. „Við þurfum að fá að hittast. Við þurfum tónlist og við þurfum að dansa. Það þýðir þó ekki að fólk þurfi að kássast utan í hvert annað. Við getum gert þetta skynsamlega en ég held það séu allir að sturlast inni í sér bara.“

Á mánudag rýmka samkomutakmarkanir svo að tvö hundruð manns mega koma saman en ekki hundrað eins og áður var. Auk þess fellur tveggja metra reglan úr gildi en eins metra regla tekur við. Það kemur sér að sumu leyti vel fyrir leikhúsin en nándartakmarkanir gera starfsemina þó enn mjög flókna. Enn þarf að raða inn í salina sem gerir það að verkum að þeir nýtast illa. „Öll skref eru góð skref en fyrir okkur í leikhúsinu breytir þetta samt ekki mjög miklu,“ segir hún.

Leikhúsið frumsýnir loks fyrsta verk leikársins, Olönnu eftir David Mamet, 18. september næstkomandi. Með aðalhlutverk í verkinu fara þau Hilmir Snær og Vala Kristín Eiríksdóttir og segir Brynhildur verkið tala beint inn í samtímann þrátt fyrir að vera næstum 30 ára gamalt. Þegar hefur verið raðað í salinn samkvæmt sóttvarnarreglum. Með tveggja metra nándarfjarlægðarreglu sem áður var í gildi komast 60 manns í salinn en samkvæmt nýjum reglum komast enn aðeins 75 manns fyrir, eða hálffullur salur. Það þarf því að fjölga sýningum til að koma öllum að sem eiga miða og bæta við fleirum svo þeir sem þess óska komist á sýninguna. Enn flóknara er slíkt fyrirkomulag í stóra salnum. „Vissulega getur þetta hjálpað ef við röðum í sóttvarnarhólf en þetta bjargar ekki lífi okkar og hefur ekki mikið að segja fyrir stóru salina.“ Stóri salur Borgarleikhússins tekur til dæmis 545 manns í sæti en þegar nýjum sóttvarnarreglum er fylgt er aðeins hægt að hleypa inn um 270 manns. „Það er ekki lífvænlegt fyrir stóra sýningu,“ segir hún.

Hún er spennt fyrir keyra leikárið af stað almennilega eftir langa bið og langar að opna allt húsið. Hún segir lítinn vanda að fara varlega og tryggja öryggi áhorfenda. „Það sem menningarstofnanir eru að hamra á, og mér finnst mikilvægt að fólk fatti, er að við erum að bjóða upp á ábyrga samkomu. Þetta er ekki samkoma um miðja nótt þar sem áfengi er haft um hönd eða neitt slíkt. Við sem erum með stór hús og getum tekið á móti fólki í gegnum marga innganga og erum með mörg aðskilin salerni. Við höfum svo góðar leiðir til að hafa þetta öruggt og ábyrgt,“ segir hún. „Við erum öll af vilja gerð og munum standa okkur þegar kallið kemur.“

Hún segir æfingar hafa gengið vel síðan ákveðið var að listamenn mættu snertast og loks var hægt að fullæfa slagsmálaatriði, rífa í hár og jafnvel kyssast. Andinn sé einnig mjög góður í hópnum og allir fegnir því að geta snúið til vinnu af krafti á ný. „Ég er með fullt hús af frábæru fólki og svo er nýtt starfsfólk að bætast við sem er algjörlega óaðfinnanlegt. Það er gleði og kraftur og við hlæjum mikið saman, sem er gott.“

Hún rifjar að lokum upp orð Sigurðar Pálssonar ljóðskálds heitins. „Hann sagði við mig: Það er ekkert jafn frelsandi og gleðin. Hún leysir hugann úr viðjum og fyllir hann rósemd,“ rifjar hún upp. „Þegar maður hefur svona að leiðarljósi þá gengur þetta. Þetta er bara svona. Við munum ráða fram úr þessu með einhverjum hætti og þetta kennir okkur nýja hugsun, þolinmæði, kærleika og gæsku.“

Rætt var við Brynhildi Guðjónsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.