Fiðluleikarinn Páll Palomares flutti hæga kaflann úr fiðlukonsert Felix Mendelsons í Hörpu í gær. Páll er leiðari annarrar fiðlu sinfóníuhljómsveitar Íslands en hann er líka giftur Veru Panitch konsertmeistara sem leiddi hljómsveitina á tónleikunum. Saman eiga þau rúmlega árs gamla tvíbura sem heita Klara og Gabríel.

Páll er hálfíslenskur og hálfspænskur en Vera er alin upp í Kaupmannahöfn, þar sem parið kynntist, af rússneskum foreldrum. Þau fluttu til Íslands fyrir fjórum árum. „Það var reyndar ég sem fékk Palla til að koma með,“ segir Vera og Páll tekur undir. „Ég hafði ekkert planað að koma til Íslands strax.“ Klassíkin okkar kíkti í heimsókn í Grafarvoginn og kynnti sér lífið á músíkölsku heimili þeirra þar sem töluð er spænska, íslenska og rússneska í bland.

Hjónin hafa notið þess mikið að starfa saman hjá sinfóníunni og eftir að fjölskyldan stækkaði færðist aldeilis fjör í leikinn. „Þau taka vel í að við séum að spila inni í stofu og þau eiga sín uppáhalds lög,“ segir Páll. „Þau dansa og klappa og finnst öll tónlist skemmtileg,“ bætir Vera við.


Í fimmta sinn efndu Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV til glæsilegra tónleika í beinni útsendingu frá Hörpu – nú til þess að fagna því að 90 ár eru frá stofnun Ríkisútvarpsins og 70 ár frá fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar. Efnisskráin spannaði allt frá Jóni Múla til Igors Stravinsky og rifjaðar upp merkar stundir í tónlistarsögu landsmanna. Fram komu meðal annarra Emiliana Torrini, Elmar Gilbertsson, Dísella Lárusdóttir, Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson, Páll Palomares og Mótettukór Hallgrímskirkju. Daníel Bjarnason stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands en Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir kynntu verkin.