Portúgölsk kona sem er búsett hér á landi segir erfitt fyrir atvinnulausa útlendinga að fóta sig á íslenskum vinnumarkaði í því ástandi sem nú ríkir. Sjálf missti hún vinnuna þegar kórónuveirufaraldurinn hófst í vor. 

Rúmlega 19 prósent atvinnuleysi er meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi og fjölgaði atvinnulausum í þeim hópi um 68 prósent fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Á fjórða hundrað eru í atvinnuleit innan annars EES-ríkis, langflestir í Póllandi, en eru enn á atvinnuleysisbótum hérlendis.

Ana Margarida Forte flutti til Íslands frá Portúgal í nóvember árið 2018. Hún lærði lögfræði í Lissabon og starfaði þar við félagsráðgjöf og atvinnumiðlun. „Ég átti mér þann draum að fara til Íslands og ekki bara til allra Norðurlandanna heldur sérstaklega til Íslands. Ísland snerist ekki um leitina að betra lífi heldur langaði mig mjög að búa þar og vera hluti af. Og þegar ég kom hingað var ég reiðubúin að vinna við nánast hvað sem er,“ segir hún.

Telur að Íslendingar gangi fyrir

Ana Margarida starfaði á hóteli miðsvæðis í Reykjavík, en þar var flestu starfsfólki sagt upp, þar á meðal henni, í vor þegar kórónuveirufaraldurinn braust út. Síðan þá hefur hún leitað að vinnu sem hún segir erfitt, í fyrsta lagi vegna stöðu ferðaþjónustunnar og í öðru lagi vegna þess að Íslendingar séu ráðnir frekar en innflytjendur. „Eins og allir útlendingar vitum við að Ísland er fyrir Íslendinga. Svo að aftur stóð ég frammi fyrir vali. En mér finnst ég eiga heima hér. Ef kerfið og þjóðin leyfir mér að vera hér áfram þá verð ég um kyrrt.“

Ana segist gjarnan vilja stunda nám hérlendis. Úrræði félagsmálaráðherra sem snýr að því að þeir sem hafi verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur geti stundað nám og fengið fullar atvinnuleysisbætur í eina önn, tekur hins vegar ekki gildi fyrr en á næsta ári. Atvinnuleitin hefur því verið í forgangi hjá henni. „Ég athuga alla möguleika og meir að segja þegar ég kom einskoraði ég mig ekki við neitt. Ég vísaði fram ferilskránni og sendi netpósta en ég veit hvernig markaðurinn vinnur. Ég verð að vera mjög regluföst og einbeitt og auðmjúk í vali mínu. Ég bý að hæfileikum mínum og verð að beita þeim í því sem ég geri. Þó það séu einföld verk.“

Margir hyggjast flytja aftur til heimalandsins

Fjöldi innflytjenda hyggst flytja heim vegna atvinnuleysisins að sögn Önu. Stjórnvöld þurfi að átta sig á mikilvægi þessa fólks. „Þeir vita að þarna er hæft og reynt fólk, jafnt utan- sem innanlands sem þeir geta fengið. Hvað á að gera við allt þetta fólk? Það er heima hjá sér, aðgerðalaust svo að það getur farið að læra eða gert eitthvað. Ég trúi því að það fari að gera eitthvað því mjög margt fólk er reiðubúið að grípa til aðgerða. Hvernig á að koma einhverju aftur af stað, vera hluti af þessum hópi. Ekki bara hanga.“