Sameinuðu þjóðirnar standa nú fyrir alheimsátaki gegn plastmengun en eitt af meginmarkmiðum þess er að binda enda á notkun einnota plasts. Almenningur, heilbrigðisstarfsfólk og fyrirtæki hafa neyðst til að nota það í meira mæli í kórónuveirufaraldrinum, þar sem meiri smithætta þykir fylgja margnota umbúðum.

„Það hefur orðið smá bakslag í umhverfismálum eftir að Covid kom. Það er mikið um einnota gúmmíhanska og einnota grímur. Við sýnum því fullan skilning. Plastið er nauðsynlegt í sumum geirum eins og í heilbrigðisgeiranum. Við megum samt ekki gleyma því að þrátt fyrir að það sé neyðarástand í heiminum þá er ennþá neyðarástand í loftslagsmálum,“ segir Heiður Magný Herbertsdóttir, formaður árverknisátaksins Plastlaus september.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, tekur í sama streng. „Það sem er gríðarlega mikilvægt er að við höldum í lærdóminn sem við erum komin með og þá hegðun sem við erum búin að byggja upp, höldum áfram að flokka allt sem við getum flokkað svo við rennum ekki niður brekkuna aftur,“ segir hún.

Gyða Sigríður Björnsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni og samfélagsábyrgð hjá Sorpu, segir að magn heimilisúrgangs hafi aukist í vor þegar fleiri unnu heima vegna faraldursins. Á heildina litið hefur þó verið tekið við minna af úrgangi í ár. Rúmlega 20 prósent minni úrgangur hefur borist frá fyrirtækjum og vegna færri ferðamanna hefur neysla dregist saman. Flokkað plast hefur hins vegar aukist um fjórtán prósent það sem af er ári.

„Við sjáum aukningu í flokkuðu plasti en við getum auðvitað ekki sagt hvað það þýðir á heildina fyrir plast því við erum að vona að þegar það kemur meira flokkað þá sé minna að fara í förgun. Plasthanskar og slíkt hafa skilað sér með almennum úrgangi - það er ekki hæft til endurvinnslu,“ segir Gyða.

Víða í heiminum minnkaði loftmengun verulega þegar dró úr flug- og bílaumferð. Mælingar benda hins vegar til þess að mengun sé nú að sækja í sama farið. Það á einnig við á Íslandi þar sem losun loftmengunarefna á höfuðborgarsvæðinu minnkaði um þrjátíu prósent samhliða minni umferð í vor, segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðamálum.

„Umferðin er komin á svipað ról eins og var, reyndar mínus ferðamannaumferðin, en Íslendingar keyra meira á móti, allavega í fríinu. Við gerum ráð fyrir svipaðri megnun núna eins og var á sama tíma síðustu ár,“ segir Þorsteinn.