Í fyrrnefndri bók segir að Madsen hafi samþykkt viðtalið með skömmum fyrirvara. Kim Wall og kærasti hennar Ole voru heima, áttu von á gestum í mat, þegar henni bárust skilaboð frá Madsen. Hún stökk til, bað kærastann að hafa ofan af fyrir gestunum fram eftir kvöldi, hún kæmi um leið og viðtalið væri búið.
Örlög Kim Wall voru sorgleg, tilgangslaus og grimm. En það var æviferill hennar ekki.
Og það hafa eftirlifandi fjölskylda hennar og vinir einblínt á. Foreldrar hennar og bróðir stofnuðu sjóð í hennar nafni. Álegum styrkjum úr honum er ætlað að styðja blaðakonur til að segja sögur fólks sem sjaldan heyrist í, styrkja þær til að ferðast um heiminn og finna sögur til að segja.
Þó minning og arfleið Kim Wall haldi áfram að lifa stendur eftir staðreyndin sem móðir hennar skrifaði og lesin var í upphafi þessa pistils. Kim Wall sneri aldrei aftur heim eftir að hafa einfaldlega verið í vinnunni.
Ellefu drepin vegna skopmynda
Og Kim Wall er langt því frá eini blaðamaðurinn sem fær ekki að snúa aftur heim eftir vinnudaginn sinn. Í vikunni hófust réttarhöld yfir mönnum sem sakaðir eru um aðild að árásum á ritstjórnarskrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í París í janúar árið 2015.
Árásarmennirnir sjálfir voru drepnir í umsátri lögreglu en fjórtán voru síðar ákærðir fyrir aðild að morðunum. Ellefu á ritstjórn Charlie Hebdo létust þennan dag en árásin er talin hefndaraðgerð fyrir birtingu blaðsins á skopmyndum af Múhameð spámanni.
Ritstjórnir um allan heim vottuðu hinum látnu virðingu sína og birtu myndir undir myllumerkinu #JeSuisCharlie. Því fólk getur haft allar heimsins skoðanir á skopmyndunum, sem og öllum verkum blaða- og fréttamanna. Þau eru misgóð eins og öll mannanna verk. En líklega geta flestir verið sammála um að enginn eigi skilið að vera drepinn fyrir störf sín.