Solastalgia nefnist nýstárleg sýning í Listasafni Íslands, í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík, sem notast við svonefndan gagnaukinn veruleika.
Solastalgia er eftir Frakkana Antoine Viviani og Pierre-Alain Giraud. Sýningunni má lýsa sem innsetningu í gagnauknum veruleika (e. augmented reality). Gestir ganga inn í sal sem hefur verið umbreytt í rústir liðinnar siðmenningar eftir endalok mannkyns. „Þessi sýning er könnun á gagnauknum veruleika,“ segir Giraud, „þar sem hliðstæður veruleiki er heimur eftir heimsenda. Þar hafa mennirnir hafa hlaðið vitund sinni í stafræna vél til þess að geta lifað á jörðinni til eilífðar.“
Sýningin er byggð á kvikmynd sem Giraud gerði með Antoine Viviani. „Þetta líkist meira kvikmynd en listsýningu. Maður gengur inn í raunverulegan heim þar sem draugar koma inn í veruleika áhorfandans og segja sögur. Þetta er ný aðferð til að segja sögur. Þessi tækni er glæný. Við fengum höfuðbúnaðinn rétt fyrir opnun, það kom á markað í ár og við hönnuðum nýja tækni til að láta verða af þessu.“
Pierre hefur unnið lengi á Íslandi með íslenskum listamönnum, þar á meðal Gabríelu Friðriksdóttur sem hannaði leikmyndina. „Þetta er svo rosalegt,“ segir hún um áhrifin þegar raunheimurinn og hinn gagnaukni heimur mætast. „Verkið fer því inn í mann. Maður finnur fyrir efnunum, maður stígur á þau og finnur lyktina, heyrir hljóðið. Og svo koma þessar vofur og þessar verur. Þetta er mjög töfrandi upplifun, eiginlega eins og draumur.“
Nánar var fjallað um Solastalgia í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.