Hundrað og tuttugu ofbeldismál gegn fötluðum hafa verið til meðferðar hjá réttindagæslumönnum fatlaðs fólks það sem af er þessu ári og í fyrra, þar af fimmtán kynferðisbrotamál. Dómar hafa fallið í þremur málum, en í tveimur þeirra voru gerendurnir starfsfólk í þjónustu við fatlaða.

Í fréttum RÚV í gær var greint frá því að tæplega fimmtugur karlmaður hefði verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn konu með þroskahömlun. Brotið framdi maðurinn í starfi sínu í skammtímavistun á Holtavegi, sem er úrræði fyrir fatlaða á vegum Reykjavíkurborgar.

Sjá einnig: Var tilkynntur til lögreglu vegna gruns um annað mál

Ingibjörg Sigurþórsdóttir, sem heldur utan um skammtímavistanir hjá borginni,  sagði í hádegisfréttum að foreldri annars einstaklings sem sótti skammtímavistunina á Holtavegi hefði tilkynnt starfsmanninn til lögreglu á svipuðum tíma og fyrra málið kom upp. Seinni kærunni var vísað frá, enda fátítt að slík mál nái fyrir dómstóla - að sögn Auðar Finnbogadóttur, réttindagæslumanns fatlaðra. 

„Árið 2019 og það sem af er ári 2020 erum við með fimmtán kynferðisbrotamál á okkar borði af 120 ofbeldismálum sem hér eru til meðferðar,“ segir Auður.

Í tveimur málum voru starfsmenn gerendur 

Fatlað fólk er útsettara fyrir ofbeldi en aðrir hópar. Auður segir einnig skorta úrræði sem fólkið geti leitað í. 

„Því miður hefur það verið svo að mörg þessara mála komast ekki upp á dómstig og í rauninni er það eitthvað sem við þekkjum almennt með kynferðisbrot. Það er mjög erfitt fyrir fatlað fólk að leita réttar síns þegar það lendir í slíkum brotum. Af þessum fimmtán málum sem við erum með hér erum við með þrjú sem hafa endað með dómi og þau mál hafa öll verið fötluðu fólki í vil. Í tveimur af þeim málum er um starfsfólk í þjónustu að ræða,“ segir Auður.

„Það er mjög alvarlegt og fatlað fólk á að geta treyst því, hvar sem það fær þjónustu, hvort sem það er í skammtímavistun eða annars staðar, að það verði ekki fyrir ofbeldi.“

Þurfa að vera til aðferðir til að koma í veg fyrir brot

Velferðarsvið borgarinnar sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kom að í kjölfar málsins hefði verkferlum verið breytt í skammtímavistun fatlaðra, Meðal annars þannig að starfsmaður af sama kyni aðstoði við baðferðir og að það sé aldrei aðeins einn í húsi með þeim sem nota þjónustuna. 

Auður segir mikilvægast að hlustað sé á fatlað fólk og þarfir þeirra séu virtar.

„Það þarf að skoða alltaf þegar svona mál koma upp hvað er hægt að gera betur. Og borgin eins og aðrir þjónustuaðilar eiga að vera með árangursríkar aðferðir til að koma í veg fyrir, og síðan að bregðast við ef það koma upp brot. Þannig að ég vona að það eigi við í þessu máli eins og alls staðar annars staðar,“ segir Auður.