„Við fögnum afmæli tveggja mætra menningarstofnana. Ríkisútvarpið er nírætt á þessu ári og Sinfóníuhljómsveit Íslands er sjötug, þó það sé nú ekki á henni að sjá. Þannig að þetta er hið gleðilegasta mál,“ segir Halla Oddný Magnúsdóttir annar umsjónarmanna Klassíkurinnar okkar sem verður í beinni útsendingu í kvöld.
Útsendingin hefst klukkan 20 á RÚV og Rás 1. Dagskráin er fjölbreytt að sögn Guðna Tómassonar umsjónarmanns. „Það er góð blanda af erlendri og íslenskri tónlist sem tengist sögu stofnananna. Verkin sem Sinfóníuhljómsveitin leikur á lykilstundum í þróun sinni, til dæmis þegar hún flutti í Háskólabíó. Við tökum verk úr þeim efnisskrám; upphafstónleikarnir í Þjóðleikhúsinu og svo íslensk tónlist sem tengist pínulítið Ríkisútvarpinu. Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa verið duglegir að semja músík í gegnum tíðina,“ segir hann.
Yndisleg músík
Landsþekktir tónlistarmenn taka þátt í viðburðinum. „Við erum með stórkostlega óperusöngvara, Dísellu Lárusdóttur og Elmar Gilbertsson sem hafa verið með okkur áður í Klassíkinni okkar, við erum ægilega spennt að hitta þá vini okkar aftur. Síðan erum við með Sigga og Siggu, Sigríði Thorlacius og Sigurð Guðmundsson, það ágæta par,“ segir Guðni.
Þannig verður dagskráin blanda ýmissa þátta. „Þetta er náttúrulega að stofninum til klassísk músík en þarna koma líka dægurperlur sem fólk þekkir og elskar. Svo er Emilíana Torrini meðal þeirra sem koma fram og það er líka tímanna tákn að Sinfoníuhljómsveit Íslands hefur opnast svo mikið á síðustu áratugum og nú er alsiða að hingað komi popparar og rokkarar og fólk úr alls konar geirum tónlistar og vinni með henni sem er svo fallegt.“
„Svo stígur einleikari fram úr hljómsveitinni, leiðari annarrar fiðlu, Páll Palomares, í stórkostlegum fiðlukonsertkafla eftir Mendelsohn, það er yndisleg músík. Þannig að þetta verður allt skemmtilegt og fallegt,“ segir Halla og Guðni bætir við: „Svo er það náttúrulega fagfólkið sem situr í hljómsveitinni, guð minn góður, þetta er okkar perla auðvitað.“
Sumir með popp, aðrir með pizzu
Afmælisveislunni verður sem fyrr segir miðlað í beinni útsendingu, enda eru engir áheyrendur í sal aðstæðna vegna. Halla Oddný segir ýmsar leiðir hægt að fara til að njóta tónleikanna. „Sumum finnst best að vera í náttfötum, poppa, baka pizzu, það er allur gangur. Sumir eru með hatt, aðrir taka því rólega,“ segir hún.
Guðni hvetur áhorfendur til virkrar þátttöku. „Við viljum endilega heyra aðeins í fólki því nú er staðan þannig að það verða mjög fáir í salnum, því miður eiginlega enginn, það er bannað. Þannig að við viljum heyra í fólkinu sem er heima í sófa og helst bara fá myndir, nota myllumerkið #klassíkin, allir með. Hafa það huggulegt heima og fagna með sínu nefi.“