Gangnamenn í Austur-Húnavatnssýslu þurftu frá að hverfa í gær sökum þoku. Jón Gíslason, bóndi á Hofi, gisti í Álkuskála á Haukagilsheiði í nótt ásamt fleiri göngumönnum og þar hófst smölun á ný í morgun. Þar er skyggni orið þokkalegt en þó er snjór yfir öllu og lágskýjað. Þegar rætt var við Jón í hádegisfréttum voru gangnamenn að byrja að mynda línu.
Jón hefur ekki áhyggjur af því að kindunum hafi farnast illa í óveðrinu í nótt. „Þetta er ekki svo mikill snjór, þetta gerir ekkert til. Það er ekkert að, það væsir ekkert um þær,“ segir hann. Réttir hefðu átt að byrja í dag en hefjast að óbreyttu upp úr hádegi á sunnudag. „Við töfðumst bara um tvo daga en vonandi fer þetta allt að ganga núna,“ sagði Jón í hádegisfréttum.
Gul veðurviðvörun verður í gildi frá Norðurlandi eystra til Suðausturlands fram á kvöld. Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að það verði áfram snjókoma og strekkingur fram eftir kvöldi á Norðaustur- og Austurlandi og víða stormstyrkur. Búast má við áframhaldandi snjókomu til fjalla fram eftir degi og þangð til það styttir upp í kvöld. Útlit er fyrir svolítinn þæfing á fjallvegum fram undir kvöld.
Spáð er bjartviðri og hægum vindi víða um land á morgun. Á sunnudag og mánudag er spáð lægð með sunnanátt og rigningu. Henni fylgir hlýtt loft og því bráðnar líklega allur snjórinn sem fallið hefur síðasta sólarhring.