Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gerir ekki ráð fyrir að bólusetningar gegn COVID-19 hefjist að einhverju ráði fyrr en um mitt næsta ár. Tedros Ghebreyesus, forstjóri stofnunarinnar, varaði einnig í dag við kapphlaupi á milli þjóða um vera fyrstar með að hefja bólusetningar. Slík samkeppni stytti ekki faraldurinn heldur lengdi.
Unnið að bóluefni um allan heim
Um allan heim er nú unnið baki brotnu að því að þróa bóluefni gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19. Tæplega 900 þúsund manns hafa látist í faraldrinum og meir en 26 milljónir manna um heim allan hafa sýkst af veirunni. Faraldurinn hefur einnig valdið alvarlegri efnahagskreppu um allan heim. Tedros Ghebreyesus varaði við því að tilraunir til að finna bóluefni snerust upp í kapphlaup á milli þjóða.
Allar þjóðir verða að fá bóluefni
Ghebreyesus sagði og að lykilatriði væri að allar þjóðir hefðu aðgang að bóluefni. Á meðan það væri af skornum skammti yrði lykilstarfsfólk og fólk í áhættuhópum að vera í forgangi. Bólusetja yrði þetta fólk í öllum löndum, ekki alla í sumum löndum.
Ghebreyesus sagði einnig að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin legði ekki blessun sína yfir neitt bóluefni nema að gagnsemi og öryggi væri sannað. Það yrði ekki gert nema með vísindalegum aðferðum.