Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir skýrslu heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð mikilvægt innlegg í umræðuna um þetta mál. Hún ásamt átta öðrum þingmönnum óskaði eftir skýrslunni. Bryndís segir mikilvægt að dauðvona sjúklingar geti valið þessa leið.
Umræðan þarf að þroskast
Í skýrslu heilbrigðisráðherra er farið ítarlega yfir hvernig staðið er að dánaraðstoð í þeim löndum sem hafa heimilað hana. Í Evrópu eru það einkum Benelúx- löndin og Sviss sem leyfa beina dánaraðstoð. Í skýrslunni er fallist á þá ósk þeirra sem óskuðu eftir skýrslunni að gerð verði viðhorfskönnum meðal heilbrigðisstarfsfólks. Slík könnun var gerð fyrir 10 árum. Þá töldu um 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga líknardráp réttlætanlegt en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk.
„Ég held að þetta sé mál sem þarf þolinmæði. Umræðan þarf að þroskast töluvert,“ segir Bryndís. „Það sem að ég myndi gjarnan vilja sjá sem næsta skref er að gerð verði skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks. Hver er afstaða heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar og hversu hátt hlutfall heilbrigðisstarfsmanna væri tilbúið að aðstoða við slíkt?“
Stuðningur við dánaraðstoð hafi aukist
Hún bendir á að síðasta könnun meðal heilbrigðisstarfsfólk hafi verið gerð fyrir 10 árum. Hennar tilfinning sé að stuðningur við dánaraðstoð hafi farið vaxandi meðal heilbrigðisstarfsfólks. En er knýjandi að ræða þetta? Er ekki nóg að bjóða upp á líknarmeðferð?
„Mest knýjandi núna eru auðvitað COVID-mál. En í stóra samhengi hlutanna þá lít ég þannig á að það sé mikilvægt að einstaklingurinn hafi val þegar að þessum hlutum kemur. Það eru auðvitað ekki margar þjóðir sem hafa farið þessa leið. Gæði líknarmeðferðar hafa aukist gríðarlega á síðustu árum. Það er mjög mikilvægt og gott að einstaklingurinn hafi frelsi til þess líka að hafna meðferð ef hann vill hana ekki,“ segir Bryndís. Hún vill meiri þunga í umræðuna sem geti leitt til þess að löggjöfinni verði breytt.
„Að gera ráð fyrir því að fólk geti valið þessa leið. Þá er ég eingöngu að tala um dauðvona sjúklinga sem eru sárkvaldir og læknar sjá ekki fram á að geta linað þjáningar þeirra.“
Myndi ekki ganga svo langt
Í Hollandi nær bein aðstoð við sjálfsvíg allt niður í 12 ára aldur. Reyndar þarf leyfi foreldra og forráðamanna fram að 16 ára aldri.
„Ég myndi ekki vilja ganga svo langt. Ég veit að þetta hefur verið mjög viðkvæm umræða í Hollandi, þegar þetta var heimilað. Þarna erum við auðvitað að tala um mjög sérstök tilvik. Ég sæi fyrst og fremst fyrir mér að það væru sjálfráða einstaklingar sem gætu valið sér þessa leið. Það er auðvitað háð þeim skilyrðum að viðkomandi aðilar væru með ólæknandi sjúkdóm og fleiri en einn læknir hafi skrifað upp á það og að kvalir þeirra væru það miklar að það væri ekki hægt að lina þær með öðrum læknisfræðilegum aðferðum. Þar myndi ég vilja draga mörkin.“