Tæplega fimmtugur karlmaður hefur verið sakfelldur fyrir að brjóta kynferðislega gegn þroskahamlaðri konu í starfi sínu á skammtímavistun fyrir fatlaða hjá borginni. Konan segist ánægð með að sér hafi verið trúað.
Málið kom upp í febrúar 2019 þegar konan, Kristín Hrefna Halldórsdóttir, dvaldi á Holtavegi 27 sem er skammtímavistun fyrir fatlaða á vegum borgarinnar. Í dóminum segir að maðurinn hafi misnotað aðstöðu sína og skipað henni að fara í sturtu og þvegið henni víðs vegar um líkamann, meðal annars um brjóst og kynfæri. Fyrir lá að Kristín hefur aldrei þurft aðstoð við að baða sig. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi, auk greiðslu fimm hundruð þúsund króna miskabóta. Fátítt er að sakfellt sé í sambærilegum málum.
Sögulegur sigur
„Hann gerði hluti. Einhverja hluti sem hann átti ekki að vera að gera. Og ég var ánægð með að mér var trúað,“ segir Kristín Hrefna.
Móðir Kristínar, Brynhildur Arthúrsdóttir, segir að þó að fjölskyldunni hafi þótt augljóst að maðurinn hefði brotið gegn Kristínu hafi þau verið búin undir að málið gæti farið á hvorn veginn sem er, þar sem um var að ræða orð gegn orði.
„Við erum náttúrulega afskaplega ánægð með niðurstöðuna því að í ljósi sögunnar hefði þetta getað farið á annan hátt því miður. Það er alltof algengt þegar fólk með fötlun á í hlut í kynferðisbrotamálum. Þetta er bara sögulegur sigur í svona málum þannig við erum auðvitað bara afskaplega ánægð,“ segir Brynhildur Arthúrsdóttir, móðir Kristínar Hrefnu.
Lykilvitni sá lokaða hurð
Á meðan atvikið átti sér stað læsti maðurinn baðherbergishurðinni og eftir sturtuferðina bað hann Kristínu um að segja ekki frá. Það gerði hún aftur á móti þegar heim var komið.
„Það vill svo vel til að það er starfsmaður sem kemur á vaktina hálftíma áður en hann átti að koma. Hann er lykilvitni og hann segir já, ég sá að hann var inni hjá henni og það var lokað. Á meðan hinn segir nei, ég fór aldrei inn. Hefði hann ekki komið hálftíma fyrr, þá veit ég ekki hvernig þetta mál hefði farið,“ segir Brynhildur.
Kristín Hrefna hafði sótt vistunina á Holtaveg í fimmtán ár en hefur ekki farið síðan málið kom upp. Atvikið hafði talsverð áhrif á hana þar sem hún lagði mikið traust á starfsfólkið.
Hafa ekki heyrt frá borginni
Þær mægður hafa ekki heyrt frá borginni eftir að dómurinn féll. Brynhildur segir mikilvægt að breyta verkferlum til að koma í veg fyrir að brot af þessu tagi endurtaki sig, til dæmis þannig að fleiri en einn séu á vakt.
„Í fyrsta lagi það að karlmaður sé ekki að baða konur, það finnst mér að eigi að vera regla,“ segir Brynhildur.
Vona að málið verði fordæmisgefandi
Kristín Hrefna og Brynhildur vona að málið gefi fötluðum konum sem lenda í ofbeldi kjark til að stíga fram, og að hlustað sé á þær.
„Eins og Kristín Hrefna segir sjálf, henni var trúað. Og ég vona bara að það fólk sem lendir í svona hugsi þetta: mér verður trúað og ég segi frá. Og skömmin er ekki mín, þetta er ekki mér að kenna. Og segi frá. Það er lang lang mikilvægast að segja strax frá,“ segir Brynhildur.