Sláturtíð er að hefjast en enn eiga þrjár afurðastöðvar af sjö eftir að gefa út verð. Útgefin verð eru þó nokkuð undir viðmiði Landssamtaka sauðfjárbænda.
Sláturfélag Suðurlands gaf afurðaverð sitt út um hádegisbil í dag, þá höfðu afurðastöðvar Norðlenda, SAH á Blönduósi og Fjallalambs á Kópaskeri gefið út verð í þessari viku. Meðaldilkaverð er um 460 til 490 krónur á kíló og hækkar alls staðar. Það er þó enn nokkuð undir viðmiðunarverði Landssamtaka sauðfjárbænda sem hljómaði upp á 600 krónur.
„Þetta eru nú ákveðin vonbrigði að þetta sé ekki meira en þessar 600 krónur sem við hjá samtökunum vorum búin að gefa út. En þetta er þó ekki lækkun,“ segir Gísli Guðjónsson, formaður Félags sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði.
Hann segir enn langt í land.
„Við lifum ekki á loftinu. Þú sérð það að það kostar um 1.100 krónur að framleiða kíló af lambakjöti svo það er langt í það enn þá.“
Þrjár afurðastöðvar hafa ekki gefið út verð
Enn er ekki komið verð frá þremur afurðastöðvum, þar á meðal Kaupfélagi Skagfirðinga. Alla jafna er afurðaverð komið í fyrri hluta ágúst. Slátrun er í þann mund að hefjast um allt land en sums staðar var þegar byrjað í síðustu viku. Gísli segir það óvenjulegt, og jafnvel einsdæmi, að ekki sé búið að gefa út afurðaverð þegar byrjað er að slátra.
„Það er alveg ótækt að menn séu að fara að láta frá sér lifibrauðið og vita ekki hvað þú ert að fá fyrir það sem þú ert búinn að starfa yfir árið,“ segir hann.
Sauðfjárbændur hafa þá kallað eftir því að afurðastöðvar geri áætlanir um hvernig verð komi til með að þróast næstu árin.
„Því að við þetta verður ekki búið. Að þetta komi bara korter fyrir slátrun eða korter eftir slátrun, það bara gengur ekki upp. Sauðfjárbændur þurfa að fá að vita þetta miklu, miklu fyrr. Best væri að vita þetta á vorin.“