Það eru bara allir að semja lög þessa dagana og að venju er Undiraldan stappfull af nýrri íslenskri tónlist. Af helstu tíðindum má nefna nýjasta lag Svölu en hún gefur á morgun út sitt fyrsta frumsamda lag á íslensku. Þá er ekki úr vegi að nefna nýtt efni af fimmtu plötu Skurken.
Svala - Sjálfbjarga
Lagahöfundurinn og söngkonan Svala gefur út lagið Sjálfbjarga á morgun en lagið er fyrsta smáskífan af fimm laga EP-plötu hennar sem kemur út seinna í haust. Lagið segir Svala að fjalli um „að vera andlega sjálfbjarga, að finna stað í huganum þar sem manni líður betur og getur komist í gegnum alla þá erfiðleika sem maður dílar við í lífinu.“
Ómland - Geymi mínar nætur
Hljómsveitin Ómland er ný af nálinni og skipuð þeim Þórdísi Imsland, Rósu Björg Ómarsdóttir og Helga Reyni Jónssyni en lagið Geymi mínar nætur er það fyrsta sem sveitin gefur út.
Gulli G - Það ert þú
Guðleifur Werner Guðmundsson, sem kallar sig Gulla G, gaf úr kántríslagarann Það ert þú á dögunum. Hann samdi lagið og textann auk þess sem hann syngur og raddar. Pétur Valgarð Pétursson spilar á gítar og Sigurgeir Sigmunds á stálgítar.
Babes of Darkness - Join Our Cult
Hljómsveitin Babes of Darkness sem dúett frá Reykjavík hefur gefið úr fyrstu þröngskífu sína, með laginu Join Our Cult en það er einmitt titillag hennar.
Holdgervlar - Skýjagljúfur
Skýjagljúfur er önnur smáskífa af fyrstu plötu Holdgervla, sem ber titilinn Gervihold og er gefin út af Myrkfælni. Holdgervlar eru að eigin sögn gerviverur- uppspuni og tónleikar þeirra bara tilbúningur.
Skurken - Sigma
Zetorr er fimmta plata tónlistarmannsins og pródúsernum Skurken. Platan fellur eins og fyrri verk í flokkinn raftónlist þar sem hann reynir að brjóta niður múrana á milli hins mannlega og hins vélræna.
Mc Bjór - Hvenær
Rapparinn Mc Bjór hefur verið ansi duglegur í útgáfu á síðustu árum og hefur sent frá sér plötuna Dropa sem inniheldur 17 lög úr ýmsum áttum.