Blaðamennirnir Jakob Bjarnar Grétarsson og Friðrik Þór Guðmundsson segja að ákvæði í siðareglum Ríkisútvarpsins stangist á við stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi. Friðrik Þór sem situr í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands segir að ekkert viðlíka ákvæði sé að finna í siðareglum félagsins.
Í vikunni voru ellefu starfsmenn RÚV kærðir fyrir brot á siðareglum Ríkisútvarpsins fyrir að tjá sig um málefni Samherja sem var fjallað um í fréttaskýringarþættinum Kveik, og viðbrögð Samherja við umfjölluninni. Starfsmennirnir voru einkum taldi hafa gerst brotlegir við ákvæði sem hljóðar svo: Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.
Annar Marsibil Clausen ræddi siðarreglur og blaðamennsku við Jakob Bjarnar Grétarsson og Friðrik Þór Guðmundsson í Lestinni. „Þegar þessar reglur voru setta fram fóru þær ekki hátt, en ég hjó strax eftir því að mér fannst þetta alls ekki standast,“ segir Jakob Bjarnar sem starfar á Vísi. „Hvernig getur ríkisstofnun sett sér siðareglur sem stangast á við stjórnarskrána? Það er stjórnarskrárvarinn réttur allra einstaklinga, hvort sem blaðamanna og annarra, til tjáningar.“ Jakob segir þetta til marks um að menn viti ekki hvernig eigi að umgangast samfélagsmiðla.
Blaðamaðurinn Friðrik Þór Guðmundsson sem kennir áfanga um vinnubrögð, fjölmiðlalög og siðareglur við Háskóla Íslands, og á jafnframt sæti í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands, segir að viðlíka ákvæði og starfsmenn RÚV voru kærðir fyrir sé ekki að finna í siðareglum Blaðamannafélagsins. „Siðareglurnar og túlkun þeirra á umliðnum árum hafa þróast með þeim hætti að ýta undir ábyrgðarfullt tjáningarfrelsi og gera skýran greinarmun á því hvað blaðamenn gera í starfi, faglegar afurðir þeirra, og hinu hvað þeir gera í sínu prívatlífi eins og á Facebook.“ Um þetta hafi fallið úrskurðir í siðanefnd Blaðamannafélagsins þar sem málum af svipuðu tagi og Samherjakærunni sé vísað frá. Friðrik tekur undir orð kollega síns Jakobs Bjarnars um að reglur RÚV stangist á við tjáningarfrelsið sem stjórnarskráin kveður á um.
Jakob telur umrætt ákvæði ekki bara slæmt því það gangi í berhögg við tjáningarfrelsi heldur ali það líka á meinlegum ranghugmyndum um blaðamennsku og fjölmiðla. „Alltaf þegar fjölmiðill birtir frétt sem einhverjum finnst að komi sér illa, hver eru fyrstu viðbrögð? Að vega að trúverðugleika miðilsins og blaðamannsins. Við sjáum þetta kristaltært einmitt í þessu máli, Samherji fer beint á eftir Helga Seljan og RÚV, og það ákvæði gefur þessari rangtúlkun undir fótinn, að þetta sé réttmæt leið til að gagnrýna.“ Fjölmiðlar séu alls ekki yfir gagnrýni hafnir en það sé nauðsynlegt að finna henni stað í fréttinni sjálfri og þess ramma sem hún ákvarðar. „Ekki reyna að vera eins og njálgur á Facebook eða Twitter og segja: „Bíddu nú við, hérna sagði Helgi Seljan árið 2006 að þetta væri svona, og var hann ekki á þorrablóti þarna fyrir austan að segja eitthvað, og þess vegna er fréttin röng.“ Þetta ákvæði í siðareglunum gefur undir fótinn að þetta rugl sé réttmætt.“
Að mati Jakobs er ekki til neitt algert hlutleysi: „Það eru kenningar um það að jafnvel þegar þú lýsir yfir hlutleysi þá sértu að taka afstöðu með ríkjandi ástandi. Það er náttúrulega eitthvað sem blaðamenn eiga aldrei að gera, heldur að efast.“ Friðrik Þór segir það að einhverju leyti eðlilegt, fjölmiðlar vilji ekki að blaðamenn tjái sig fjálglega og á glannalegan hátt opinberlega um málefni sem þeir eru að fjalla um, á þann hátt sem rýrt gæti trúverðugleika miðilsins. „Þetta er vandrataður vegur og hann þarf að þræða.“ Jakob tekur undir þetta og segir nokkuð algengt að blaðamenn segi sig frá málum vegna þess að þeir sjálfir eða stjórnendur telji þá vanhæfa til að fjalla um þau. „En við verðum að gera skýran greinamun á Jakobi á Facebook og Jakobi í vinnunni.“
Annar Marsibil Clausen ræddi við Jakob Bjarnar Grétarsson og Friðrik Þór Guðmundsson í Lestinni.