Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja, segir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafa verið fjársvelta ár eftir ár. Hún segir sárlega vanta fjármagn til að byggja upp grunnheilbrigðisþjónustu á svæðinu enda hafi íbúum þar fjölgað hratt á síðustu árum. Díana var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
„Það er sorglegt að segja frá því að framlög til heilsugæslusviðs hér á svæðinu á hvern íbúa eru langsamlega lægst. Við erum að fá 71.000 á hvern íbúa á meðan næstu stofnanir eru að fá 100.000 og sú sem fær hæst er að fá 184.000,“ segir Díana.
Margir íbúar á Suðurnesjum skráðir á höfuðborgarsvæðinu
Hún segir það áhyggjuefni hversu margir Suðurnesjamenn eru skráðir í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. „Og það er líka hægt að segja frá því að þrátt fyrir það að þú sért skráður í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu þá geturðu að sjálfsögðu líka sótt þjónustu á HSS. Þannig að það eru margir sem eru skráðir í bænum en sækja einnig einhverja þjónustu hingað á HSS. Þannig að peningurinn fer til Reykjavíkur en hluti þjónustunnar er sóttur hér, því Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu fær greitt eftir skjólstæðingafjölda,“ segir Díana.
HSS veitir helmingi fleirum þjónustu en húsnæðið leyfir
„Heilsugæslan á HSS er rúmir 700 fermetrar. Samkvæmt reiknilíkani ætti það að duga til að þjónusta allt að 12.000 manns en er að þjónusta helmingi fleiri. Og það segir sig sjálft að dæmið gengur ekki upp,“ segir Díana.
Þá segist hún viss um að nálægðin við höfuðborgina hafi áhrif á fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. „Það virðist vera ákveðin hentisemistefna hjá stjórnvöldum. Það hentar stundum að við séum landsbyggð og hentar stundum að við séum partur af höfuðborginni. Þetta er svolítið skakkt,“ segir hún.