Dánartúrismi

En það er annað sem er sérstakt við dánaraðstoðina í Sviss, því Svisslendingar hafa sérhæft sig í svokölluðum dánartúrisma. 
Þegar þekktur ástralskur vísindamaður, 104 ára að aldri, kom til Sviss fyrir tveimur árum gagngert til að gera það sem hann mátti ekki heima fyrir, að fá aðstoð við að deyja þótt hann væri ekki dauðvona þá vakti það mikla athygli í fjölmiðlum. Það mikla að ári síðar var aðstoð við sjálfsvíg heimiluð í Viktoríufylki í heimalandi hans Ástralíu. Þessi dauðatúrismi til Sviss og kannski helst hans neikvæðu hliðar komast reglulega í fréttir hér. Einhvers staðar verða þessir óvanalegu ferðalangar að fá að deyja og vitanlega kvarta íbúar í fjölbýlishúsum yfir því ef búið er að breyta einni nágrannaíbúðinni í, hvað eigum við að segja, alþjóðlegt sláturhús. Til að leysa þennan húsnæðisvanda var einn félagsskapurinn því búinn að koma sér í staðinn upp nokkurs konar sjálfsvígssendibíl sem þótti ekki minna virðingarleysi. Og á tímabili leiddi læknaskortur til þess að ekki fékkst ávísað lyfjum og hinum deyjandi var því gert að anda að sér helíum úr plastpoka sem olli enn einu fjölmiðlafárinu í Sviss. En það kemur þó ekki í veg fyrir að hingað til Sviss streymi áfram útlendingar til að deyja, einkum frá Þýskalandi og Bretlandi. Fyrir sjö árum fór jafnvel einn Íslendingur, Steinar Pétursson, sem þjáðist af heilaæxli, í þessa för til Sviss sem enginn kemur til baka úr. Dauðatúristar fylla um fjórðung af flokki þeirra þúsund sem fá aðstoð við að stytta sér aldur í Sviss á ári hverju. Sjálfsvígin sem aðstoðað er við eru um eitt og hálft prósent af öllum dauðsföllum í Sviss sem er í raun svipað hlutfall og önnur hefðbundnari sjálfsvíg í landinu. Eða eins og Charlie Chaplin sagði stuttu fyrir andlátið þegar hann var spurður að því hvort gott væri að lifa í Sviss. “Ég get ekkert fullyrt um það, en hitt er ég viss um að hér verður gott að deyja.
 

Pistill sem Jón Björgvinsson flutti í Speglinum