Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á blaðamannafundi Almannavarna í dag að hann hefði lagt til við heilbrigðisráðherra að takmarka samkomur við 200 manns í stað 100 eins og nú er. Þá leggur hann til að miðað verði við eins metra nálægðarreglu í stað tveggja metra. Eins metra reglan tíðkast nú í skólum og sýna rannsóknir að líkur á smiti séu fimmfalt minni sé einn metri á milli manna. Hann leggur til að ný tilmæli taki gildi 7. september.

Þórólfur segir að eins metra reglan sé ásættanleg og auðveld í framkvæmd. Hún verður líka til þess að hægt verður að liðka til annars staðar. Þannig leggur hann til að sundlaugar og líkamsræktarstöðvar geti leyft 75 prósentum af leyfilegum heildarfjölda að vera inni hverju sinni í stað 50 prósenta nú. Eins verða 200 manna hólf leyfð á áhorfendasvæði íþróttavalla og sviðslistasýningar verði leyfðar með 200 áhorfendur að hámarki. Þar verður eins metra reglan jafnframt í gildi. Loks leggur Þórólfur til að skemmti- og vínveitingastaðir verði áfram opnir til ellefu á kvöldin.

Allt að 300 í stórum verslunum

Á vinnustöðum, í verslunum, opinberum byggingum og þjónustu er lagt til að starfsemi sé skipulögð í samræmi við 200 einstaklinga í sama rými, og í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja eins metra fjarlægð milli einstaklinga. Í matvöruverslunum sem eru yfir 1.000 fermetra að stærð verði heimilt að hleypa til viðbótar einum viðskiptavin inn fyrir hverja tíu fermetra umfram 1.000 fermetra, þó að hámarki 300 viðskiptavinum í allt.

Áfram skal nota andlitsgrímur sem hylja nef og munn þar sem eins metra fjarlægð verður ekki viðkomið. Það á við um starfsemi þar sem krafist er meiri nálægðar en eins metra, á borð við heilbrigðisþjónustu, á hárgreiðslustofum, nuddstofum og í almenningssamgöngum. 

Líkt og áður eiga fjöldatakmarkanir ekki við um börn fædd 2005 og síðar.

Til stóð að núverandi reglur væru í gildi til 10. september, en Þórólfur leggur til að nýjar reglur taki gildi fyrr, eða þann 7. þessa mánaðar.