Fulltrúar atvinnulífsins og vinnumarkaðarins leggja nú mat á forsendur lífskjarasamningsins og mögulega endurskoðun hans. Forsætisráðherra segir ríkisstjórnina ekki leggja til frestun launahækkana.
Við undirskrift lífskjarasamningsins var gert ráð fyrir að hann yrði endurskoðaður haustið 2020 og 2021. Forsendur samningsins voru aukinn kaupmáttur launa, lækkun vaxta og stuðningur stjórnvalda til að draga úr vægi verðtryggingar. Unnið er að endurskoðun forsendna innan SA og ASÍ sem síðan funda um framhaldið.
„Við munum hittast eflaust tvisvar, þrisvar eða eitthvað slíkt til að fara yfir þessar forsendur. Þetta eru ekki beinar samningaviðræður heldur getur hvor aðili um sig komist að gagnstæðri niðurstöðu,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Beggja vegna borðsins er spilunum haldið þétt að sér varðandi framhaldið.
„Tvær forsendur af þremur halda klárlega: Kaupmáttaraukning og vaxtalækkun. Síðan er það þriðja forsendan sem er yfirlýsing stjórnvalda og þar þurfum við að ræða betur við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Það er ljóst að margt hefur breyst í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum, því miður, með tilkomu þessarar veiru og kreppunnar sem því fylgir. Mikilvægt að við aðlögum okkur að breyttum veruleika,“ segir Halldór Benjamín.
„Erum að fara inn í óvissuvetur“
Spáð er allt að 10 prósenta atvinnuleysi í lok árs, en næsta launahækkun lífskjarasamningsins er fyrirhuguð um áramót.
„Við erum að sjálfsögðu hrædd við frekari uppsagnir. Við erum að fara inn í óvissuvetur. En við höfum ekki ljáð máls á því að launafólk taki á sig skerðingar umfram það sem launafólk hefur þegar tekið á sig með auknu atvinnuleysi,“ segir Drífa.
Áttu von á átökum í þessum samningaviðræðum?
„Það á eftir að koma í ljós, ég ætla ekki að spá neinu fyrir um það á þessari stundu.“
Ríkisstjórnin ekki að leggja til frestun
Samgönguráðherra viðraði hugmyndir í Kastljósi í fyrrakvöld um að fresta kjarasamningsbundnum launahækkunum. Miðstjórn ASÍ gagnrýndi slíkt í gær og forsætisráðherra tók fyrir það á Alþingi í dag, en sagði það þó hafa verið til umræðu hjá þjóðhagsráði í gær þegar farið var yfir stöðu efnahagsmála.
„Þar sem sitja forsvarsmenn ríkisstjórnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Ég ítreka það að þarna er ríkisstjórnin ekki að leggja neitt til,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í dag.