Shostakovitsj samdi hinn fræga vals sinn fyrir svítu í léttum stíl, líklega á árunum um 1960. Hann átti sín tengsl við Ísland þrátt fyrir að hann hafði aldrei komið til landsins.

Ólíkt Aram Katsjatúrían kom Dmítríj Shostakovitsj (1906–1975) aldrei til Íslands. Hann átti þó sín tengsl við landið gegnum eina birtingarmynd menningartogstreitu kaldastríðsáranna. Sumarið 1972 kepptu þeir Bobby Fischer og Boris Spassky um heimsmeistaratitilinn í skák í Laugardalshöll, eins og frægt er orðið. Shostakovitsj var mjög í mun að fylgjast með lýsingum á skákum þeirra í beinni útsendingu frá Laugardalshöll. Um þetta leyti sigldi hann með skipi til Englands þar sem átti að flytja verk hans, en hann hafði tekið með sér ferðaútvarp um borð svo hann missti nú örugglega ekki af neinu. Útvarpið bilaði skömmu síðar og starfsfólk skipsins hafði allnokkuð fyrir því að gera við það í tæka tíð fyrir næstu skák frá Íslandi.

Shostakovitsj samdi hinn fræga vals sinn fyrir svítu í léttum stíl, líklega á árunum um 1960. Valsinn varð fyrst heimsfrægur löngu síðar, þegar leikstjórinn Stanley Kubrick notaði hann í kvikmynd sinni Eyes Wide Shut.