Eldfuglinn eftir Ígor Stravinskíj var eitt fyrsta verkið sem hljómaði á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Ígor Stravinskíj (1882–1971) var aðeins 27 ára gamall þegar rússneski athafnamaðurinn Sergej Djagílev pantaði af honum tónlist við Eldfuglinn, nýjan ballett handa dansflokkinum Ballets Russes. Djagílev tefldi á tvær hættur með því að setja traust sitt á svo ungt og að mestu óreynt tónskáld, enda leitaði hann ekki til Stravinskíjs fyrr en eftir að þrjú önnur tónskáld höfðu neitað að taka það að sér. Stravinskíj sá strax að hér var um einstakt tækifæri að ræða, lagði til hliðar hálfsamda óperu og vatt sér umbúðalaust að nýja verkinu. Eldfuglinn var frumfluttur í Parísaróperunni í júní 1910 við feykigóðar undirtektir, sem varð til þess að þeir Djagílev héldu samstarfinu áfram með Petrúsku (1911) og Vorblóti (1913). 

Söguþráður ballettsins er sóttur í rússneskar þjóðsögur. Hér segir af unga prinsinum Ívan, sem hrífst af prinsessu einni sem er í haldi Kastseis hins illa. Liðsmenn hans handtaka prinsinn og allt útlit er fyrir að hann mæti sömu örlögum og aðrir vonbiðlar prinsessunnar: þeim hefur öllum verið breytt í stein. Á ögurstundu minnist Ívan þess að hann hefur fjöður eldfuglsins í fórum sínum, og þegar hann veifar fjöðrinni birtist eldfuglinn og magnar upp ofsafenginn vítisdans sem Kastsei og liðsmenn hans dansa án þess að fá við nokkuð ráðið. Því næst svæfir eldfuglinn Kastsei með angurværri vögguvísu, og verkinu lýkur á mikilfenglegum gleðidansi. Eldfuglinn var eitt fyrsta verkið sem hljómaði á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í nývígðu Háskólabíói haustið 1961, og er sú tónsmíð Stravinskíjs sem hljómsveitin hefur oftast flutt.


Í fimmta sinn efna Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV til glæsilegra tónleika í beinni útsendingu frá Hörpu – nú til þess að fagna því að 90 ár eru frá stofnun Ríkisútvarpsins og 70 ár frá fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar. Efnisskráin spannar allt frá Jóni Múla til Igors Stravinsky og rifjaðar upp merkar stundir í tónlistarsögu landsmanna. Fram koma meðal annarra Emiliana Torrini, Elmar Gilbertsson, Dísella Lárusdóttir, Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson, Páll Palomares og Mótettukór Hallgrímskirkju. Daníel Bjarnason stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands en Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir kynna verkin.