Harmljóð Edvards Grieg hefur margsinnis hljómað á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Edvard Grieg (1843–1907) gerði hina sívinsælu leikhústónlist sína við Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen fyrir uppfærslu Kristiania Teater í Ósló. Það tók hann hálft annað ár að semja leikhústónlistina við Pétur Gaut enda er hún feykilega umfangsmikil, ríflega 90 mínútur í flutningi þegar allt er talið saman. Skömmu síðar tók Grieg saman tvær hljómsveitarsvítur úr verkinu sem fóru sigurför um heiminn og hafa ásamt píanókonsertinum fræga tryggt orðspor hans. Ibsen var sjálfur hæstánægður með tónlist Griegs; honum fannst hún „gera pilluna svo sæta að almenningur gat kyngt henni“. Ekki hafa þó allir verið á sömu skoðun. Einn helsti ævisöguritari Ibsens, Michael Meyer, fann að því að tónlistin breytti dramatísku leikritinu í „sykursætt Andersen-ævintýri“. Skáldinu Thor Vilhjálmssyni þótti helst skyggja á leiksigur Gunnars Eyjólfssonar í aðalhlutverkinu árið 1963 hvað tónlist Griegs ætti illa við: „Það er svívirðileg fölsun að gera Pétur Gaut að rómantísku þjóðlífsmyndabríaríi. Verkið er reiðilestur, beisk og grimm ádeila sem á ekkert skylt við hina hugljúfu saklausu skemmtandi tónlist.“ Í réttu samhengi leikur þó varla vafi á því að tónlist Griegs setur sterkan svip á leikrit Ibsens, gefur því þjóðlegan blæ og skerpir á upplifun leikhúsgesta.
Dauði Ásu er harmljóð fyrir strengi og hefur margsinnis hljómað á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einn flutningur er mörgum sérlega eftirminnilegur, þegar hljómsveitin lék þáttinn utan dagskrár á tónleikum í Háskólabíói í janúar 1995, til minningar um þá sem létust í snjófljóði á Flateyri nokkrum dögum fyrr.
Í fimmta sinn efna Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV til glæsilegra tónleika í beinni útsendingu frá Hörpu – nú til þess að fagna því að 90 ár eru frá stofnun Ríkisútvarpsins og 70 ár frá fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar. Efnisskráin spannar allt frá Jóni Múla til Igors Stravinsky og rifjaðar upp merkar stundir í tónlistarsögu landsmanna. Fram koma meðal annarra Emiliana Torrini, Elmar Gilbertsson, Dísella Lárusdóttir, Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson, Páll Palomares og Mótettukór Hallgrímskirkju. Daníel Bjarnason stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands en Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir kynna verkin.