„Það er allavega ekki það fyrsta sem ég hugsa á morgnana, að ég sé forsætisráðherra,“ segir Katrín Jakobsdóttir sem hefur nú gegnt embættinu í þrjú ár. Faðir hennar lést þegar hún var tvítug en þau voru mjög náin. Hann kynnti hana fyrir mörgu sem hún hefur enn áhuga á í dag, þar á meðal hryllingsmyndum.
Katrín Jakobsdóttir var gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur í Segðu mér. Katrín ólst upp við að ekkert verkefni væri of ómerkilegt til að þurfa ekki að sinna því vel og hún segist hugsa stanslaust um vinnuna. „Ég tek verkefnið rosalega alvarlega og vil sinna því eins vel og ég get. En ég ber kannski ekki alveg ábyrgð á persónulegri hamingju hvers og eins,“ segir hún. Katrín segir að tvennt hafi hún lært á löngum stjórnmálaferli, en hún hefur setið á þingi síðan 2007. „Í fyrsta lagi að það er leyfilegt að gera mistök, og í öðru lagi að það er í lagi að það líki ekki öllum við mann.“ Hið fyrrnefnda hafi hún tileinkað sér fljótlega eftir að hún settist á þing en hitt mun seinna. „Það kom bara fyrir 4-5 árum og það er frelsun.“
Hún segist lítið lesa athugasemdakerfi fjölmiðla. Hún hafi sett sér reglur um hvernig hún umgengst fjöl- og samfélagsmiðla, og maðurinn hennar er hættur á samfélagsmiðlum. „Hann tók ákvörðun fyrir eigin geðheilsu og hvarf á brott þaðan þegar ég varð forsætisráðherra. Og það hefur bara gefist mjög vel. Fyrir utan að við missum af fullt af boðum,“ segir Katrín sposk. Hún segist stundum fá haturspósta en telur að flestir í stjórnmálum fái slíka. Hún svarar þeim ekki en heldur til haga. „Geymi þetta bara í möppu. Ég er að spá í að gefa þetta út á bók einhvern tímann,“ segir hún hlæjandi. Hún segist þó ekki liggja mikið yfir þeim og sé alls ekki langrækin.
Skömmuð fyrir að hlæja of mikið
Fyrst ætlaði Katrín að vera á þingi í tvö kjörtímabil en nú eru þau orðin fimm á 13 árum. Hún segist ekki viss um hvenær hún ætli að hætta, en hyggst í það minnsta bjóða sig fram í næstu kosningum. Katrín er 44 ára en líður alls ekki þannig. „Ég held maður stoppi bara einhvers staðar 23 ára og haldi alltaf að maður sé það.“ Aðalmálið sé að gleyma því ekki að fíflast og hlæja eftir því sem aldurinn færist yfir. „Ég hef meira að segja verið skömmuð fyrir að hlæja of mikið. Það þykir stundum ekki nógu virðulegt.“
Faðir Katrínar lést þegar hún var tvítug en hún hringdi oft í móður sínar þegar henni fannst ómaklega að sér vegið í þingstöfunum. „Það er ekki hver sem er sem maður hringir í með svoleiðis, því hvað er maður að vorkenna sér? Hún dó 2011 en ég hugsa enn þá stundum hvað mig langar til að hringja í hana.“ Faðir hennar dó fyrir næstum aldarfjórðungi, mjög skyndilega. „Hann greindist með krabbamein að vori 1996 og var dáinn í júlí. Þetta var mjög hröð vegferð. Það er auðvitað eitthvað sem kippir manni inn í heim fullorðinna mjög hratt. Í síðasta skiptið sem hann gat borðað mat var í stúdentsveislunni minni. Auðvitað hefur þetta áhrif á mann. Það fer einhver hluti úr lífinu og skilur eftir sig tóm. Þegar ég lít til baka held ég þetta hafi orðið til þess að ég stökk beint í fullorðinsheiminn.“
Katrín var mjög náin föður sínum. „Mamma var til staðar að passa upp á mann, pabbi fór með mig á bannaðar myndir og kynnti mig fyrir svo mörgu af því sem ég hef enn þá áhuga á. Allar vinkonur mínar fóru á Dirty Dancing, og þá var ég á geimhryllingsmyndum um skrímsli að éta geimfara.“ Hún sá Dirty Dancing í fyrsta skiptið í fyrra en Alien er enn þá ein af uppáhaldsmyndunum hennar. Hún er mikil bíómanneskja og ein sena úr kvikmyndinni Hitcher er henni sérlega minnisstæð. „Ég man enn eftir því þegar einhver persóna í myndinni er að borða franskar kartöflur og heldur allt í einu á blóðugum þumalfingri. Ég gat ekki sofið um nóttina.“
Vídjó og mexíkósk grýta í Álfheimum
Fjölskyldan bjó þröngt í íbúð í Álfheimum og heimilislífið var nokkuð hefðbundið, en Katrín á þrjú systkini. „Ofboðslega náin. Gerðist ekkert mikið, bara vídjó og mexíkósk grýta frá Toro. Gott hversdagslíf. Ég fór fyrst til útlanda þegar ég var 18 ára.“ Hún bjó að því að hafa mjög stuðningsríka foreldra sem hún gat talað við um allt. Hún reynir að koma eins fram við syni sína þó stundum sé það erfitt vegna mikilla anna. „Í fyrra kom upp eitthvað mál í sumarfríinu sem skiptir engu í stóra samhenginu, en um það voru 17 símtöl á tveimur dögum. Synir mínir töldu þau og það var veðmál.“
Eiginmaður Katrínar er Gunnar Sigvaldason heimspekingur en þau kynntust á spjallforritinu MSN og hafa verið saman í 16 ár. „Við vorum í Háskólanámi á sama tíma og tengdust í gegn um sameiginlegan vin. Við giftum okkur 2007, viku áður en barn númer tvö kom í heiminn.“ Hún segist hafa mikið skap og eiga það til að blóta mikið. „Maðurinn minn vill meina að hann hafi varla kunnað að blóta fyrr en hann hitti mig. En ég reyni að gera það ekki opinberlega og mun ekki gera það í þessum útvarpsþætti,“ segir Katrín. Þrátt fyrir miklar annir finnur hún alltaf smá tíma til lesturs. „Á hverjum einasta degi les ég eitthvað, einhvern skáldskap. Þó ég sofni yfir honum.“
Sigurlaug M. Jónasdóttir ræddi við Katrínu Jakobsdóttur í Segðu mér. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í útvarpsspilara RÚV.