Um fimmtíu komu að björgun manns sem var hætt kominn í nótt eftir að hafa fest sig í leðju í Sandvatni í Haukadal. Illa gekk að losa manninn, sem gat sig hvergi hreyft í rúmlega fimm klukkustundir.
Fastur í rúma fimm tíma
Maðurinn, sem er tæplega þrítugur, hafði verið á gæsaveiðum með vini sínum, þegar hann festi sig í leirbotni Sandvatns, rétt sunnan við Langjökul, um klukkan tíu í gærkvöld. Vinur hans kallaði eftir aðstoð, björgunarsveitir voru strax ræstar út en fljótt varð ljóst að fleiri þurfti til.
Vel gekk að finna manninn en svæðið er afskekkt og illa gekk að komast að honum. Björgunarmenn sáu strax fram á strembið verk. Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Guðmundur Ragnar Magnússon, stýrimaður og sigmaður, tóku þátt í aðgerðunum.
„Þegar fyrstu björgunarmenn koma á staðinn var ljóst að maðurinn var alveg pikkfastur og á endanum var hann um fimm klukkustundir fastur í vatninu í heildina. Það eitt og sér er nógu erfitt ef þú stendur einhvers staðar á stofugólfinu heima hjá þér en úti í vatni bætist líka við kuldinn og svo er myrkur og erfiðar aðstæður og það tók heillangan tíma að losa manninn,“ segir Guðbrandur.
Vinur mannsins var honum til halds og trausts en tilraunir til að losa hann höfðu ekki borið árangur. Leirinn var eins og steypa og sogkraftur myndaðist sem hélt honum föstum. Að lokum tókst að losa manninn - og líkt og heyrist á myndskeiði af björguninni var öllum létt.
Stutt í leikslok ef ofkælingin hefði farið að segja til sín
Maðurinn, sem vill ekki láta nafn síns getið, sendi fréttastofu yfirlýsingu, þar segir hann að það hafi verið hræðileg tilfinning að sitja fastur úti í vatni og vera algerlega bjargarlaus. Viðbragðsaðilar hafi verið fagmannlegir og hughreystandi í þessum erfiðu aðstæðum - en maðurinn var að eigin sögn orðinn mjög kaldur og örmagna.
Hann var fluttur með þyrlu á Landspítala til aðhlynningar en varð ekki meint af. Guðbrandur Örn segir að lykillinn að þvi velgengni verkefnisins hafi verið góð samvinna viðbragðsaðila.
„Í þessu tilviki fékk viðkomandi bestu þjónustu sem hann gat mögulega fengið og ég hefði ekki viljað hugsa þá hugsun til enda ef við hefðum verið einir í þessu eða gæslan hefðu verið einir í þessu, því það hefði bara verið mjög erfitt.“
Guðmundur Ragnar segir að það haf staðið tæpt á. „Ef hann hefði ekki náð að fá aðstoð innan einhverra klukkutíma hefði ofkælingin farið að segja talsvert til sín og þá er stutt í leikslok.“