Róbert Spanó varð í dag fyrsti forseti Mannréttindadómstóls Evrópu sem fer í opinbera heimsókn til Tyrklands. Heimsóknin hefur sætt talsverðri gagnrýni vegna þess að mannréttindi séu þar fótum troðin og tugþúsundir mála tengd mannréttindabrotum hafa verið send Mannréttindadómstólnum.
Róbert Spanó er fyrsti Íslendingurinn sem gegnir embætti forseta Mannréttindadómstólsins, raunar er sá fyrsti frá Norðurlöndunum. Hann kom til Tyrklands í dag í fjögurra daga heimsókn í boði dómsmálaráðuneytis landsins. Hann byrjaði á að fara með Abdulhamit Gul dómsmálaráðherra í dómaraskólann Justice Academy þar sem hann hélt tölu fyrir nemendur.
Erdogan bauð honum í forsetahöllina
Einnig hitti hann forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, sem bauð honum í forsetahöllina í Ankara. Á vef Mannréttindadómstólsins segir að á þeim fundi hafi Róbert meðal annars vakið máls á mikilvægi lýðræðis, tjáningarfrelsis og sjálfstæði dómstóla. Á morgun heimsækir Róbert Istanbul-háskóla. Fregnir hafa borist af því að þar standi til að gera hann heiðursdoktor við skólann. Eftir valdaránstilraunina 2016 voru nærri tvö hundruð fræðimenn reknir frá þessum sama skóla. Einn þeirra er Mehmet Altan.
Skrifaði opið bréf til Róberts
Altan skrifaði opið bréf til Róberts í aðdraganda heimsóknarinnar. Þar bendir Altan á að ríflega 60 þúsund umsóknir frá Tyrklandi hafi verið sendar Mannréttindadómstólnum. Altan kenndi við skólann í þrjátíu ár og þrátt fyrir að brottrekstur hans hafi verið dæmdur ólögmætur hjá Mannréttindadómstólnum hefur hann ekki enn fengið að snúa aftur.
„Fólkið sem rak mig veitir þér heiðursgráðu,“ segir Altan. Þá bendir hann á að margir þeirra fræðimanna sem voru reknir frá háskólanum muni leitast eftir að fá lausn mála fyrir Mannréttindadómstólnum og það skjóti skökku við að forseti dómstólsins sé heiðursdoktor við skólann sem rak þá.
Fulltrúi Tyrkja fór gegn Ingibjörgu Sólrúnu
Það er sama á hvaða lista eða úttekt á stöðu mannréttinda er litið, alltaf er Tyrkland neðarlega á lista. Síðustu ár hefur staðan versnað. Skemmst er að minnast þess að fulltrúi Tyrkja hjá Lýðræðis og mannréttindarstofnun ÖSE lagðist gegn því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra héldi áfram sem forstjóri stofnunarinnar, vegna þess að Ingibjörg Sólrún hafði ekki beitt sér fyrir því að útiloka frjáls félagasamtök frá fundum stofnunarinnar.