Bændur hafa áhyggjur af fé enda er spáð snjókomu á heiðum. Bændur í Fljótsdal smöluðu í gær en þurftu frá að hverfa vegna þoku. Þeir fóru aftur af stað í morgun til að sækja fé inn við Snæfell á svæði sem er í um 600 metra hæð. Það er viðbúið að úrkoman breytist í snjókomu í nótt þegar kólnar.
„Þá vita menn hvað gerist“
„Við erum fyrst og fremst að reyna að lækka féð í landinu. Ná því sem er lengst í burtu, koma því nær og lægra í landið. Það er slæm veðurspá og full ástæða til þess að reyna að koma því undan. Þetta liggur það hátt að það er hætt við að það gæti orðið hættulegt fyrir féð og mjög erfitt að smala þetta land þegar er kominn snjór þannig að það er bara mun þægilegra að koma því nær áður en það gengur í vitlaust veður og fyllir alla grafninga af snjó. Þegar veðurhæðin er mikil þá fer það í skjól og þá fennir yfir það. Þá vita menn hvað gerist,“ segir Þorvarður Ingimarsson, fjallskilastjóri í Fljótsdal.
Bændur sem eiga fé á Þeistareykjaafrétti fóru líka af stað í morgun, einnig bændur í Mývatnssveit. Þá kepptust bændur í Húnavatnssýslum við að ná fé niður af hálendinu. Um hádegi voru bændur í Fljótsdal búnir að ná saman ágætu safni. „Það gekk bara býsna vel, við fengum bjart, alveg nægilega bjart til þess að smala það svæði sem við ætluðum okkur í dag. Þannig að við erum búnir að lækka þetta í landinu þannig að maður hefur ekki neinar þungar áhyggjur af þessu núna. Þetta eru nokkur hundruð fjár og maður er bara nokkuð sáttur með daginn,“ segir Þorvarður.
Hann temur smalahunda og fer ekki ofan af því að þeim auðveldi starfið. „Það er nauðsynlegt að eiga góða fjárhunda. Þeir spara manni mikinn tíma og vinnu. Það ættu allir sauðfjárbændur að eiga góðan fjárhund,“ segir Þorvarður.