Billie Eilish deildi í gærkvöldi á Instagram myndbandi með íslensku tónlistarkonunni Laufeyju Lín að syngja nýjasta lag hennar, My future. Laufey segist alls ekki hafa búist við því þegar hún birti myndbandið að Eilish myndi sjá það. Hún segir að hún sé enn í sjokki.

Laufey ákvað í gær að deila með fylgjendum sínum á Instagram myndbandi af sér að syngja eins og hún hefur gert margoft áður. Að þessu sinni varð lag Billie Eilish, My future, fyrir valinu og eins og fólk gerir stundum þegar það birtir ábreiður á Instagram ákvað hún að merkja Eilish sjálfa í myndbandinu. Hún bjóst hins vegar alls ekki við því að Eilish myndi sjá myndbandið, hvað þá að hún myndi deila því til rúmlega 66 milljóna fylgjenda sinna. En sú varð raunin. 

„Þetta kom mér bara mjög á óvart, ég var ekki að búast við þessu. Hún er með stórt Instagram þannig að ég var alls ekki að búast við því að hún myndi sjá myndbandið,“ segir Laufey.

Myndböndin sem Laufey hefur birt hingað til á Instagram eru oftast hennar eigin lög eða gömul djasslög. „Fólkið sem flutti þau fyrst er ekkert á lífi lengur,“ bætir hún við og hlær. Hún segir að vissulega hafi talsvert af fylgjendum bæst við eftir að Eilish deildi myndbandinu en skemmtilegast hafi verið að sjá hversu margir Íslendingar séu farnir að fylgjast með henni núna. „Þetta var meirihlutinn bara útlendingar fyrir en mér finnst mjög gott að tengjast Íslendingum. Ísland er minn heimabær auðvitað.“

Laufey syngur mikið af gömlum lögum eins og áður segir og ákvað því að breyta aðeins til og spyrja fylgjendur sína hvaða nýja lag þeir vildu heyra. Flestir nefndu My future. Laufey var þá búin að hlusta mikið á lagið enda Billie Eilish-aðdáandi og segir áhugavert hversu djassað það sé en djass er uppáhalds tónlistarstíll Laufeyjar. „Það er mjög skemmtilegt hvað það er mikið af djassi að læðast inn í popptónlist og mín tónlist er svona djasspopp þannig ég ákvað bara að taka ábreiðu af þessu lagi og henda inn einhverjum djasshljómum líka,“ bætir hún við.

Laufey hefur gefið út tvö eigin lög á þessu ári, „Someone New“ og „Street by Street.“ Nú er hún nýflutt til London þar sem vinnur að útgáfu EP-plötu sem hún segir mjög spennandi. Meðfram því stundar hún nám við Berklee tónlistarháskólann í Boston. Vegna COVID-19 fer allt nám fram á netinu og hún þurfti því ekki að vera í Bandaríkjunum. 

Laufey er spennt fyrir því að spila meira á Íslandi. Það hafi verið sérstaklega gott að vera hér á landi í sumar og raunar eins og paradís miðað við Bandaríkin í ástandinu þar. Hér á Íslandi hefur Laufey líka tekið þátt í söngvakeppnunum The Voice og Ísland Got Talent og svo sigraði hún í Vælinu, söngvakeppni Verzlunarskóla Íslands, árið 2017.

Hún segir að það sé gott og þægilegt að vinna tónlist á Íslandi og er spennt að koma og spila hér aftur þegar aðstæður í samfélaginu bjóða upp á það. „Þetta er auðvitað skrítinn tími til að vera tónlistarmaður, það er ekki hægt að vera að spila mikið „live.“ En þegar það fer að rúlla aftur kem ég alveg pottþétt til Íslands og spila þar,“ segir Laufey að lokum. 

Viðtal við Laufeyju Lín má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.