„Eftir á að hyggja hefðum við sennilega átt að grípa til aðgerða fyrr,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands. „Ábyrgðin liggur hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.“
Einar Þorsteinsson ræddi við Ágúst í Kastljósi í kvöld. Hægt er að horfa á allan þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan.
Mistök urðu til þess að að minnsta kosti 45 konur fengu ranga niðurstöðu úr leghálsskoðun Krabbameinsfélags Íslands. Ein þeirra er nú með ólæknanlegt krabbamein. Kanna á einnig hvort kona sem lést úr krabbameini fyrir skömmu úr leghálskrabba hafi einnig verið ranglega greind. Krabbameinsfélag Íslands ætlar að endurskoða um 6000 sýni vegna þessa og hefur þegar endurskoðað 1.800 þeirra. Ágúst segir að breytingar hafi komið fram í 45 af sýnunum en að ekkert þeirra sé sambærilegt og í máli konunnar sem lést. Hann segir að áætlað sé að 100 til 150 konur þurfi að koma aftur í skimun.
Nýkominn úr veikindaleyfi þegar sýnið var greint
Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu kemur fram að starfsmaðurinn sem rannsakaði sýni konunnar sem lést hafi nýlega verið kominn úr veikindaleyfi og ekki hægt að fullyrða um hvort heilsubrestur viðkomandi hefði stuðlað að því sem gerðist. Starfsmaðurinn er hættur að eigin beiðni fyrir nokkru síðan.
Í Kastljósi kom fram að samstarfsfólk hefði lýst áhyggjum af getu viðkomandi til að greina sýni. Ágúst svaraði því að þær áhyggjur hefðu ekki komið upp á meðan starfsmaðurinn var við störf. Ekkert hafi bent til annars en að starfsmaðurinn væri heill heilsu.
Ágúst var spurður að því í Kastljósi hvort kerfið ætti ekki að vera þannig uppbyggt að ef einn starfsmaður klikkar að þá sé einhver annar sem grípur boltann og tryggi að skjólstæðingur fái réttar niðurstöður. Hann segir að í gæðaeftirliti sé tekið slembiúrtak af eðlilegum sýnum sem skoðuð séu af öðrum starfsmanni.
Ágúst svaraði því aðspurður að það komi til greina að fá óháðan aðila til að skoða sýnin.
Gæðakerfi uppfyllti ekki skilyrði
Árið 2017 gerði Tryggvi Björn Stefánsson krabbameinsskurðlæknir kröfulýsingar fyrir hönd Sjúkratrygginga þar sem kannað var hvort Krabbameinsfélagið væri fært um að sinna skimun eftir krabbameini. Rætt var við Tryggva í Kastljósi. Þar kom fram að ekki hafi verið gæðakerfi í Leitarstöðinni sem uppfyllti viðmið Evrópu tilskipana.
Ágúst segir að ekki hafi verið gerðar miklar breytingar hjá þeim eftir árið 2017. Unnið sé eftir Evrópu leiðbeiningum og árangur og gæðamat stöðvarinnar sé skilgreint eftir þeim. Reynt sé að skima í samræmi við verklagsreglur Evrópu og nágrannalanda.