Rekaviður og plast eru í brennidepli í fjögurra ára hreinsunarátaki á Ströndum. Leita á nýrra leiða til að nýta rekavið sem hefur safnast upp síðustu áratugi.

Fjörurnar á Ströndum eru víða hlaðnar rekaviði sem safnast hefur saman í áranna rás. Inn á milli og ofan í jörðu leynist svo fleira en viður. Plastdollur, netadræsur, skór og jafnvel leikföng, sem mega muna sinn fífil fegri. Hrafn Jökulsson er nýfluttur í Árneshrepp á Ströndum og hann hefur tekið það að sér að hreinsa fjörurnar.

„Ég byrjaði þrettánda maí. Þá ákvað ég að helga mig þessu í fjögur ár og hef verið að síðan með mörgum frábærum einstaklingum úr öllum áttum. Ekki síst Veraldarvinum, sjálfboðaliðunum frábæru úr öllum heimshornum. En þetta ævintýri er rétt að hefjast og við ætlum bara að halda áfram að taka til.“

Hvað kom til?

„Ég fékk bara nóg hérna í vor þegar ég kom í Kolgrafarvíkina mína og ætlaði að fara að hneykslast enn eitt árið. Svo varð ég bara hneykslaður á sjálfum mér að hafa ekki gert eitthvað fyrir löngu. Þannig að ég ákvað bara að gera það og það hefur reynst einhver skemmtilegasta ákvörðun sem ég hef tekið.“

Vill finna leiðir til að nýta fúnandi rekavið

Rekaviðurinn er eitt helsta kennileiti sjávarsíðunnar á Ströndum og ábúendur þar hafa löngum notið þeirra hlunninda sem honum fylgir. Eftir því sem íbúum hefur fækkað hefur viðurinn hins vegar víða hlaðist upp. Hrafn segir því plast og annað rusl ekki það eina sem þarf að hreinsa.

„Svo er líka, liggja á fjörum Strandasýslu þúsundir tonna af fúnandi sprekum sem voru einu sinni auðlind en er núna plága sem er að éta upp landið okkar eins og þið sjáið. Þetta þarf allt saman að hreinsa og við þurfum að finna lausn á því. Hvað gerum við við þessa auðlind sem er að verða að engu. en við ætlum að finna leiðir til þess að nýta hana þótt hún sé komin á þetta stig,“ segir Hrafn.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.