Íslenska karlalandsliðið í fótbolta undirbýr sig nú fyrir leikinn við England í Þjóðadeild Evrópu á Laugardalsvelli á laugardag. Leikurinn verður fyrsta viðureign landsliðanna síðan Ísland sló England út í 16-liða úrslitum EM 2016 í Frakklandi.
Íslenska landsliðið æfði á Laugardalsvelli fyrir hádegi í dag og má sjá svipmyndir frá æfingu íslenska liðsins í spilaranum hér fyrir ofan. Ísland og England mætast svo á Laugardalsvelli klukkan 16:00 á laugardag. Engir áhorfendur verða leyfðir á leiknum. Stöð 2 Sport á útsendingarétt á leiknum í sjónvarpi og þá verður leiknum einnig lýst í útvarpinu á Rás 2.
Enska landsliðið mun ekkert æfa á Laugardalsvelli fyrir leikinn. Liðið kemur til Íslands á föstudag og spilar leikinn á laugardag. Enski hópurinn mun hins vegar dvelja á Íslandi í tvo daga eftir leikinn og vera við æfingar hérlendis áður en liðið heldur til Danmerkur og spila við heimamenn í Þjóðadeildinni á þriðjudag. þann sama dag spilar Ísland útileik við Belgíu ytra.
Nokkur forföll eru meðal fastamanna í íslenska landsliðinu. Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason, Aron Einar Gunnarsson og Ragnar Sigurðsson eru allir fjarverandi af ólíkum ástæðum.
Aðgengi fjölmiðla að leikmönnum íslenska liðsins er ekkert vegna sóttvarnarreglna UEFA, Evrópska knattspyrnusambandsins. Það útskýrir hvers vegna viðtöl við þjálfara og leikmenn eru að skornum skammti fram að leik. Þó verður boðið upp á blaðamannafundi í gegnum fjarfundarbúnað degi fyrir leik og eftir leikina.